lau 28.maí 2022
[email protected]
Perisic efstur á óskalista Conte - Eriksen eftirsóttur
Enskir fjölmiðlar greindu frá því í dag að Antonio Conte verður áfram hjá Tottenham eftir jákvæðar viðræður við Fabio Paratici, yfirmann fótboltamála.
Daniel Levy forseti Tottenham hefur mikla trú á Ítölunum Conte og Paratici og ætlar að gefa þeim væna fúlgu fjárs til að nota í sumar. Þeir félagarnir eru með tvö forgangsmál í byrjun sumars, að semja við Harry Kane og Ivan Perisic. Hinn 28 ára gamli Kane á tvö ár eftir af samningnum við Tottenham á meðan Perisic, sem er lykilmaður hjá Inter, verður samningslaus í sumar. Hinn 33 ára gamli Perisic er með samningstilboð frá Inter á borðinu en Chelsea hefur einnig sýnt honum áhuga. Það eru þó góðar líkur á því að hann haldi til Tottenham þar sem hann getur endursameinast gamla þjálfaranum sínum Conte. Fabrizio Romano heldur því fram að Perisic muni tilkynna ákvörðun sína á mánudaginn. Hann telur líklegt að Króatinn skrifi undir tveggja ára samning við Spurs. Tottenham hefur verið duglegt að sækja leikmenn úr ítalska boltanum eftir komu Conte. Allar líkur eru á að félagið nýti kaupréttinn í lánssamningum Dejan Kulusevski og Cristian Romero sem nema rúmlega 80 milljónum evra samanlagt. Þá er Tottenham á höttunum eftir danska miðjumanninum Christian Eriksen sem lék fyrir félagið í sjö ár áður en Conte fékk hann yfir til Inter í janúar 2020. Eriksen hefur verið öflugur með Brentford í vor og hafa minnst þrjú úrvalsdeildarfélög sett sig í samband við hann til að bjóða honum samning þegar hann verður samningslaus í sumar. Brentford og Tottenham eru tvö þeirra. Fyrsti leikmaðurinn til að ganga í raðir Tottenham í sumar verður þó væntanlega markvörðurinn Fraser Forster sem kemur á frjálsri sölu frá Southampton. Hann mun fylla í skarð Pierluigi Gollini sem varaskeifa fyrir Hugo Lloris. Ítalskir fjölmiðlar segja að Gollini, sem er á leið heim til Atalanta, muni enda hjá Fiorentina.
|