þri 07.jún 2022
Undankeppni HM: Ástralía mætir Perú í úrslitaleik

Furstadæmin 1 - 2 Ástralía
0-1 Jackson Irvine ('53)
1-1 Caio Canedo ('57)
1-2 Ajdin Hrustic ('84)Ástralía er komið í úrslitaleik um sæti á HM eftir sigur gegn Sameinuðu arabísku furstadæmunum í kvöld.

Staðan var markalaus eftir jafnan og tíðindalítinn fyrri hálfleik og tók Ástralía forystuna í upphafi síðari hálfleiks þegar Jackson Irvine, miðjumaður St. Pauli í þýsku B-deildinni, skoraði eftir frábæran undirbúning frá Martin Boyle. Boyle er kunnugur staðháttum þar sem hann leikur fyrir Al-Faisaly í Sádí-Arabíu eftir níu ár með Hibernian í Skotlandi.

Caio Canedo, sem er fæddur í Brasilíu en hefur verið búsettur í Mið-Austurlöndunum í tæp tíu ár, var snöggur að jafna fyrir heimamenn.

Það var áfram jafnræði á vellinum en Ajdin Hrustic, leikmaður Eintracht Frankfurt, náði að gera sigurmark fyrir Ástralíu á lokakaflanum. Hrustic átti gott skot þar sem hann smellhitti boltann en þurfti þó að hafa heppnina með sér til að skora. Boltinn, sem var fastur og á leið beint á markið, fór af varnarmanni og lak í netið.

Þetta reyndist sigurmarkið og hefst nú undirbúningur Ástrala fyrir úrslitaleik við Perú um sæti á HM. Liðin mætast næsta mánudag.