mið 08.jún 2022
„Nýbúinn að skora á móti Val og má svo ekki fara út fyrir skólalóðina"

Galdur Guðmundsson er á leið til FC Kaupmannahafnar eftir að hafa slegið í gegn hjá Breiðablik í sumar. Hann hefur leikið þrjá leiki á tímabilinu og skoraði í risa sigri Blika gegn Val í Mjólkurbikarnum.Dagur Dan Þórhallsson leikmaður Breiðabliks var gestur í hlaðvarpsþættinum Ungstirnin á dögunum en hann var spurður út í Galdur.

„Ég sá það á fyrstu æfingunni. Ég hugsaði; Hver er þessi strákur eiginlega? Þá var mér sagt að hann væri fæddur 2006, maður var bara, jáhá. Hann var að klára 10. bekk. Gísli Eyjólfs sagði svo fyndið, „Það er svo skritið að sjá Galdur, nýbúinn að skora á móti Val og er svo bara í grunnskóla og má ekki fara út fyrir skólalóðina," sagði Dagur.

„Hann er líkamlega tilbúinn og gæðin ótrúlega mikil.

„Það sem sker hann út frá öðrum er að þora. Hann gerði bara grín af Jesper Juelsgaard á móti Val, tók Rasmus Christiansen og hrinti honum frá sér og setti hann í skeytin," sagði Arnar Laufdal annar af þáttastjórnendunum.

„Honum er líka alveg sama, þótt hann myndi fara á mann og tapa honum 10 sinnum þá væri hann ekki að hugsa eins og ég hefði gert á hans aldri; frekar spila ég til baka, eitthvað þægilegt. Honum er bara alveg sama, fer bara aftur og aftur þangað til hann klobbar gaurinn og setur hann í vinkilinn eða setur hann fyrir og við skorum," sagði Dagur.

Dagur hefði viljað sjá Galdur klára tímabilið með Breiðabliki.

„Ég væri mjög til í það, ef ég myndi ráða einhverju þá myndi ég setja fótinn niður og segja honum að vera áfram. En það er geggjað tækifæri að fara þarna út. Ég held að hann hefði gott að því að spila heilt tímabil í Bestu deildinni."

Það er hægt að hlusta á þáttinn í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.