mið 22.jún 2022
Sterkastur í 10. umferð - Hefði getað unnið leikinn einn
Í sjötta sinn í liði umferðarinnar og í þriðja sinn valinn leikmaður umferðarinnar. Ísak Snær Þorvaldssson hefur verið magnaður og áður en lengra er haldið er óhætt að mæla með þessari grein sem Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson skrifaði:

Hvernig Ísak Snær varð óvænt langbestur í deildinni

„Eina leiðin fyrir Ísak Snæ að skora ekki er að vera ekki inni á vellinum," sagði Tómas Þór Þórðarson í Innkastinu þar sem fjallað var um 10. umferðina. Breiðablik vann 4-1 sigur á KA.

KA náði engan veginn að ráða við Ísak sem skoraði eitt mark og átti tvær stoðsendingar.

„Ég held að Ísak Snær hefði getað unnið þennan leik einn. Hvaða kjaftæði er þetta? Menn eru orðnir svo hræddir við hann að ef þeir lenda í bakinu á honum þá nenna þeir ekki að brjóta," sagði Tómas og Elvar Geir Magnússon tók undir:

„Hann fer þarna fram eins og jarðýta og það er ekki fræðilegur möguleiki að taka boltann af honum."

Í þættinum segir Benedikt Bóas Hinriksson að hann trúi ekki öðru en Ísak fari út í atvinnumennsku strax í júlíglugganum. Hægt er að hlusta á þáttinn í heild í spilaranum hér að neðan.

Sjá einnig:
„Á engin orð yfir þessum leik sem Ísak bauð upp á hérna í dag"

Leikmenn umferðarinnar:
9. umferð - Eyþór Aron Wöhler (ÍA)
8. umferð - Guðmundur Magnússon (Fram)
7. umferð - Daníel Laxdal (Stjarnan)
6. umferð - Jason Daði Svanþórsson (Breiðablik)
5. umferð - Tryggvi Hrafn Haraldsson (Valur)
4. umferð - Ísak Snær Þorvaldsson (Breiðablik)
3. umferð - Emil Atlason (Stjarnan)
2. umferð - Oliver Stefánsson (ÍA)
1. umferð - Ísak Snær Þorvaldsson (Breiðablik)