Sun 17.Jul 2022
Ein úr hópnum í dag tók þátt í sigri á móti Frökkum
Sif Atladóttir spilaði leikinn 2007.
Margrét Lára í leiknum gegn Frakklandi árið 2007.
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur

Liðið okkar var mjög óheppið árið 2017.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Ísland mun á morgun spila við Frakkland í lokaumferð riðlakeppninnar á Evrópumótinu.

Ísland er með örlögin í höndum sér fyrir leikinn því við komumst alltaf áfram með sigri í þessum leik.

Það verður hægara sagt en gert að ná sigri því Frakkland er með ógnarsterkt lið.

Við höfum í heildina mætt Frakklandi sjö sinnum og í sex tilfellum hafa Frakkar farið með sigur af hólmi. Einu sinni tókst Íslandi að vinna en það var í undankeppni EM 2009, þegar Ísland fór í fyrsta sinn á stórmót.

Það var Margrét Lára Viðarsdóttir sem skoraði sigurmarkið í þeim leik á 81. mínútu. Margrét Lára átti ótrúlegt sumar þarna þar sem hún skoraði 38 mörk í 16 deildarleikjum fyrir Val.

Sif Atladóttir, sem er í hópnum núna, byrjaði þann leik og Ásta Árnadóttir, sem er núna sjúkraþjálfari liðsins, var í bakverði.

Byrjunarlið Íslands gegn Frakklandi 2007:
1. Þóra Björg Helgadóttir (m)
2. Guðrún Sóley Gunnarsdóttir
3. Ásta Árnadóttir
4. Edda Garðarsdóttir
5. Sif Atladóttir
6. Ásthildur Helgadóttir (f)
7. Dóra Stefánsdóttir
8. Katrín Jónsdóttir
9. Margrét Lára Viðarsdóttir
10. Greta Mjöll Samúelsdóttir
11. Erla Steina Arnardóttir

Höfum tvisvar mætt þeim á stórmóti
Það hefur tvisvar gerst áður að Ísland hefur mætt Frakklandi á stórmóti. Það gerðist á fyrsta stórmótinu hjá stelpunum okkar árið 2009. Í þeim leik skoraði Hólmfríður Magnúsdóttir fyrsta markið en leikurinn endaði 1-3. Sonia Bompastor, sem er núna þjálfari Lyon, var á meðal markaskorara Frakka í þeim leik.

Svo mættum við þeim í fyrsta leik fyrir fimm árum og var niðurstaðan mjög svekkjandi þar.

Frakkarnir stjórnuðu ferðinni í leiknum en íslenska liðið varðist ótrúlega vel. Við áttum að fá víti í fyrri hálfleik þegar Fanndís Friðriksdóttir féll í teignum en ekkert var dæmt. Frakkarnir fengu svo umdeilt víti undir lokin. Úr því kom sigurmarkið.

Hægt er að skoða textalýsingu frá leiknum árið 2017 með því að smella hérna.

Það verður virkilega spennnandi að sjá hvað gerist á morgun. Möguleikarnir eru klárlega til staðar.

Sjá einnig:
Ísland gæti farið áfram á prúðmennskunni - „Skrítnari hlutir hafa gerst"