sun 17.júl 2022
Siggi Raggi: Stundum þarf maður bara að vera sterkur
Sigurður Ragnar Eyjólfsson
„Mér fannst við spila mjög vel í dag og ég er bara stoltur af liðinu. Við erum að spila við besta lið landsins sem er með frábæra hugmyndafræði og frábæra leikmenn.“ Sagði Sigurður Ragnar Eyjólfsson þjálfari Keflavíkur um viðbrögð sín eftir 3-2 tap Keflavíkur gegn Breiðablik í Keflavík í kvöld þar sem sigurmark Breiðabliks kom úr vítaspyrnu í uppbótartíma.

Sigðurður bætti svo við um leik sinna manna í dag og hvað það var sem réði úrslitum.

„Við spiluðum frábæran fyrri hálfleik en þegar fór að líða á leikinn settu þeir okkur undir mikla pressu. Stundum þarf maður bara að vera sterkur og standast ágjöf en við náðum því ekki í dag og mér fannst þetta mjög soft víti sem þeir fengu í restina og náðu að stela sigri fannst mér.“

Keflavíkurliðið var óhrætt lengst af leik að setja pressu á Blika og uppskáru vel. Fannst Sigurði kannski fullmikil orka fara í það sem hefði getað nýst liðinu varnarlega í restina?

„Við erum komnir í stöðuna 2-1 og erum að spila mjög vel og skynsamlega. Breiðablik er mjög taktískt lið og "physical" líka og spila góðan fótbolta og boltinn gengur hratt á milli manna og þú verður að vera með þitt hlutverk á hreinu enda hafa þeir ekki tapað mörgum stigum í sumar. En við höfðum alla burði til þess að taka að minnsta kosti eitt stig hér í dag.“

Sagði Siggi Raggi en allt viðtalið má sjá hér að ofan.