fim 21.júl 2022
2. deild: KF í sjötta sætið eftir stórsigur - Jafnt í Hafnarfirði
Þorvaldur Daði hefur verið öflugur í liði KF í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson

Þrettánda umferðin í 2. deild karla hófst í kvöld með tveimur leikjum. KF og KFA mættust á Ólafsfirði en í Hafnarfirði mætti neðsta lið deildarinnar, Reynir Sandgerði, í heimsókn og tók á móti Haukum.Á Ólafsfirði var markalaust í hálfleik en gestirnir frá Austfjörðum gátu talist óheppnir að vera ekki yfir. Þeir léku með vindinn í bakið en hvasst var á Ólafsfirði í kvöld.

KFA fékk þrjá mjög góða sénsa til að skora en það tókst ekki. Tvíveigis björguðu heimamenn á síðustu stundu en einu sinni fór skot rétt framhjá tréverkinu. KF náði að skapa sér eitt gott færi í fyrri hálfleiknum en Unnar Elí Jóhannsson varði vel í marki gestanna.

Í síðari hálfleiknum var hins vegar annað upp á teningnum en þar voru heimamenn í KF miklu sterkari og hreinlega völtuðu yfir KFA. KF skoraði fjögur mörk á nítján mínútna kafla.

Þorvaldur Daði Jónsson kom þeim bláklæddu yfir snemma í síðari hálfleiknum og stuttu síðar fiskaði Atli Snær Stefánsson vítaspyrnu. Hann tók spyrnuna sjálfur og senti Unnar í vitlaust horn.

KF hélt áfram að hamra járnið á meðan það var heitt og skoraði Þorvaldur Daði sitt annað mark en hann kláraði þá færið sitt vel í fjærhornið framhjá markmanni KFA.

Atli Snær vildi ekki gera minna en Þorvaldur og hann skoraði sitt annað mark og fjórða mark KF með flottum skalla yfir Unnar og rak þannig síðasta naglann í kistu Austfirðinga.

KF er í sjötta sæti deildarinnar eftir þennan sigur með jafn mörg stig og KFA sem situr í því áttunda en með verri markatölu.

Í Hafnarfirði náði Reynir Sandgerði að komast upp úr neðsta sæti deildarinnar með því að sækja eitt stig gegn Haukum. Gestirnir komust yfir áður en Haukar sneru taflinu við en Reynir náði að jafna metin á 77. mínútu leiksins. Markið kom úr vítaspyrnu.

Reynir er því í 11. sæti deildarinnar með sex stig en Haukar sitja í því fjórða með tuttugu stig.

Þrettánda umferðin heldur áfram á morgun og klárast svo á laugardaginn kemur.

KF 4-0 KFA
Mörk KF: Þorvaldur Daði Jónsson (2) og Atli Snær Stefánsson (2).

Haukar 2-2 Reynir S.
0-1 ('13)
1-1 Gísli Þröstur Kristjánsson ('48)
2-1 Gísli Þröstur Kristjánsson ('56)
2-2 ('77)