fös 22.júl 2022
Nýr leikmaður West Ham frá í þrjá mánuði
Nayef Aguerd
Nayef Aguerd, nýr varnarmaður West Ham á Englandi, verður ekki með næstu þrjá mánuði vegna meiðsla sem hann varð fyrir gegn Rangers í æfingaleik á dögunum.

Marokkómaðurinn var keyptur til West Ham frá Rennes fyrir 30 milljónir punda í síðasta mánuði.

Hann meiddist illa á vinstri ökkla í leik gegn Rangers á dögunum og samkvæmt frétt beIN Sports verður hann frá næstu þrjá mánuði.

David Moyes, stjóri West Ham, var í miklum vandræðum varnarlega á síðustu leiktíð og var það því í forgangi að kaupa varnarmann inn fyrir nýtt tímabil.

Þetta er því mikið áfall fyrir West Ham að missa Aguerd í meiðsli rétt fyrir byrjun deildarinnar.

West Ham er nú með Craig Dawson, Kurt Zouma og Issa Diop klára og þá er Angelo Ogbonna að koma til baka eftir erfið meiðsli.