sun 24.júl 2022
Ten Hag: Gengur ekki að kasta frá sér tveggja marka forystu

Erik ten Hag var ekki sáttur eftir 2-2 jafntefli Manchester United gegn Aston Villa í æfingaleik í gær.Man Utd komst í tveggja marka forystu fyrir leikhlé en Aston Villa tókst að koma til baka og ná jafntefli. 

„Ég gerði þeim ljóst í klefanum að það er óásættanlegt að missa einbeitingu í fótboltaleik eins og gerðist í dag. Ég er samt ánægður því þetta er gott dæmi fyrir strákana, það er betra að þetta gerist núna heldur en í leik sem skiptir máli," sagði Ten Hag.

„Í byrjun seinni hálfleiks þá verður maður að finna einbeitinguna aftur en við gerðum það ekki. Okkur gekk mjög vel í fyrri hálfleik, við skoruðum frábær mörk en svo misstum við einbeitingu. Strákarnir eru kannski þreyttir en það er engin afsökun. Þeir verða að standa sig en þeir gerðu það ekki í seinni hálfleik.

„Mistök skipta öllu máli í þessari íþrótt og við verðum að fækka þeim. Leiðin er enn löng en ég hef séð miklar framfarir á fyrstu tveimur vikunum hérna. Það er mikilvægt að við lærum af þessu því það gengur ekki að kasta frá sér tveggja marka forystu í fótboltaleik."

Man Utd og Aston Villa áttust við í Perth, Ástralíu, en Rauðu djöflarnir spila næst við Atletico Madrid á laugardaginn. Liðin mætast á Ullevaal leikvanginum í Osló rétt eftir hádegi.

Steven Gerrard og lærisveinar hans halda aftur á móti til Frakklands þar sem þeir mæta Rennes, einnig næsta laugardag.