sun 24.júl 2022
Bandaríkin: Montreal í góðri stöðu - Bernardeschi byrjar af krafti
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Mynd: EPA

Mynd: Siena

Þorleifur Úlfarsson lék allan leikinn úti á kantinum hjá Houston Dynamo sem tapaði heimaleik gegn Minnesota United í MLS deildinni í nótt.Houston var betra liðið í leiknum og fékk fleiri færi en nýting gestanna var betri og komust þeir í tveggja marka forystu í seinni hálfleik.

Houston endaði á að tapa leiknum og er með 25 stig eftir 22 umferðir, fimm stigum frá umspilsbaráttunni þegar aðeins fjórar umferðir eru eftir af deildartímabilinu.

Róbert Orri Þorkelsson kom þá inn í uppbótartíma er Montreal lagði lærisveina Wayne Rooney í DC United á útivelli.

Rommel Quioto sá um markaskorunina fyrir Montreal sem er í fjórða sæti í austurhluta deildarinnar með 35 stig eftir 21 umferð.

Houston Dynamo 1 - 2 Minnesota United
0-1 F. Fragapane ('45)
0-2 B. Hlongwane ('72)
1-2 F. Picault ('86)

DC United 1 - 2 Montreal
0-1 Rommel Quioto ('1)
0-2 Rommel Quioto ('35)
1-2 S. Birnbaum ('56)

Arnór Ingvi Traustason spilaði þá fyrstu 67 mínúturnar úti á kantinum hjá New England Revolution sem gerði markalaust jafntefli við Columbus Crew.

New England er með 26 stig eftir 21 umferð, aðeins tveimur stigum frá umspilssæti.

Enginn Íslendingur er í stjörnum prýddu liði Toronto en Federico Bernardeschi spilaði í dag sinn fyrsta leik fyrir félagið og var stjarnan ásamt kempunni Michael Bradley.

Bernardeschi skoraði bæði og lagði upp á meðan Bradley setti tvennu í langþráðum sigri. Lokatölur urðu 4-0 og fullkomin leið til að binda enda á hrikalega slakt gengi undanfarinna vikna. Toronto var leikmanni fleiri stóran hluta seinni hálfleiks eftir að Christian Fuchs, fyrrum leikmaður Leicester, fékk að líta rauða spjaldið.

Að lokum lék markamaskínan Óttar Magnús Karlsson allan leikinn er tíu leikmenn Oakland Roots töpuðu fyrir Las Vegas Lights í næstefstu deild Bandaríkjanna.

Oakland er tveimur stigum frá umspilsbaráttunni þar og er Óttar Magnús markahæstur í deildinni með 15 skoruð.

Til gamans má geta að Gareth Bale kom af bekknum og skoraði í sigri Los Angeles FC á meðan Xherdan Shaqiri skoraði og lagði upp í sigri Chicago Fire.

Columbus Crew 0 - 0 New England Revolution

Toronto FC 4 - 0 Charlotte
1-0 Jonathan Osorio ('4)
2-0 Michael Bradley ('10)
3-0 Federico Bernardeschi ('31)
4-0 Michael Bradley ('45)
Rautt spjald: Christian Fuchs, Charlotte ('65)

Oakland Roots 0 - 2 Las Vegas Lights
0-1 Danny Trejo (ekki Machete) ('53)
0-2 T. Leone ('73)
Rautt spjald: P. Blanchette, Oakland ('43)