fim 28.júl 2022
Athletic segir Ronaldo í viðræðum við Sporting
Ronaldo heldur mikið uppá sín persónulegu met, enda er hann ein mesta markavél fótboltasögunnar.

The Athletic greinir frá því að Cristiano Ronaldo vilji ólmur fara frá Manchester United og sé að gera allt í sínu valdi til að sannfæra félagið um að selja sig.Greint er frá því að Ronaldo og umboðsmaður hans Jorge Mendes séu að skoða félagaskipti aftur til Sporting CP, uppeldisfélags Ronaldo.

Ronaldo er 37 ára gamall og vill taka eins mörg tímabil og hann mögulega getur í Meistaradeildinni til að bæta markametið sitt enn frekar. Portúgalinn er með 140 meistaradeildarmörk, 15 mörkum meira heldur en Lionel Messi sem er tveimur árum yngri.

Mendes hefur verið í viðræðum við Sporting um möguleg kaup og kjör en það eru liðin 19 ár síðan Ronaldo var síðast hjá félaginu.

Athletic greinir einnig frá því að Manchester United sé búið að gefast upp á Antony, kantmanni Ajax. Félagið er þá í viðræðum við RB Salzburg varðandi Benjamin Sesko en þeir austurrísku vilja ekki selja hann.