fim 28.júl 2022
Sambandsdeildin: Hólmbert setti þrennu - Patrik sló Sparta Prag út
Mynd: KSÍ

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Það voru nokkrir Íslendingar sem léku lykilhlutverk í leikjum dagsins í forkeppni Sambandsdeildarinnar. Hólmbert Aron Friðjónsson setti þrennu í stórsigri Lilleström gegn SJK frá Finnlandi á meðan Patrik Sigurður Gunnarsson átti stóran þátt í að slá stórlið Sparta Prag úr leik.Lilleström hafði unnið fyrri leikinn 0-1 á útivelli og gerði Hólmbert Aron endanlega út um Evrópuvonir SJK. 

Royal Antwerp frá Belgíu eru líklegir andstæðingar Lilleström í næstu umferð.

Norsku félögin fóru á kostum í dag þar sem Viking sló einnig Sparta Prag úr leik á meðan Molde rúllaði yfir Elfsborg.

Samúel Kári Friðjónsson lék allan leikinn á miðju Viking á meðan Patrik Sigurður Gunnarsson stóð sig eins og hetja á milli stanganna líkt og hann gerði í fyrri leiknum.

Gestirnir frá Prag tóku forystuna skömmu fyrir leikhlé en Viking tókst að jafna fyrir hálfleiksflautið. Sparta stjórnaði fyrri hálfleiknum en seinni hálfleikurinn var jafnari og tókst Mai Traore að gera sigurmark fyrir heimamenn í uppbótartíma.

Lilleström 5 - 2 SJK (6-2 samanlagt)
1-0 I. Matthew ('23)
1-1 N. Laine ('31)
2-1 Hólmbert Aron Friðjónsson ('42)
3-1 Hólmbert Aron Friðjónsson ('56)
4-1 Hólmbert Aron Friðjónsson ('61)
5-1 C. Rosler ('85)
5-2 D. Rojas ('91)

Viking 2 - 1 Sparta Prag
0-1 D. Zeleny ('42)
1-1 V. Vevatne ('45)
2-1 Mai Traore ('92)

Sveinn Aron Guðjohnsen var í byrjunarliði Elfsborg sem tapaði heimaleik gegn Molde og er dottið úr leik eftir að hafa hlotið rassskellingu í fyrri leiknum í Noregi.

Molde vann 1-2 á útivelli í dag eftir 4-1 sigur í heimaleiknum.

Hákon Rafn Valdimarsson er varamarkvörður Elfsborg og Björn Bergmann Sigurðarson er enn fjarverandi úr liði Molde vegna meiðsla.

Að lokum eru Sverrir Ingi Ingason og félagar í PAOK úr leik eftir jafntefli við Levski Sofia á heimavelli. PAOK tapaði fyrri leiknum úti í Búlgaríu.

Sverrir Ingi er mikilvægur hlekkur í varnarlínu PAOK og lék allan leikinn.

Elfsborg 1 - 2 Molde (2-6 samanlagt)
1-0 M. Baidoo ('40)
1-1 E. Breivik ('54)
1-2 D. Fofana ('83)

PAOK 1 - 1 Levski Sofia (1-3 samanlagt)
0-1 Ronaldo ('25)
1-1 T. Dantas ('56)
Rautt spjald: D. Augusto, PAOK ('72)

Þá voru nokkur önnur lið frá Norðurlöndunum sem kepptu í dag án þess að vera með Íslendinga innanborðs.

Bröndby hefndi þar fyrir KR með stórsigri gegn Pogon Szczecin, pólska félaginu sem rúllaði yfir KR í síðustu umferð.

Bröndby og Pogon gerðu jafntefli í Póllandi en Danirnir rúlluðu yfir Pólverjana þegar þeir kíktu í heimsókn til Danmerkur. Tvenna frá Simon Hedlund fyrir leikhlé hjálpaði og urðu lokatölur 4-0.

Þær gefa ekki rétta mynd af leiknum þar sem færanýting Bröndby var upp á tíu á meðan gestirnir klúðruðu hverri hættulegu sókninni fætur annarri.

KuPS frá Finnlandi er þá komið áfram eftir öruggan sigur gegn Milsami frá Makedóníu, Djurgården frá Svíþjóð lagði Rijeka bæði heima og í Króatíu og danska félagið Viborg gerði slíkt hið sama gegn Suduva frá Litháen.

Bröndby 4 - 0 Pogon Szczecin (5-1 samanlagt)

Milsami 1 - 4 KuPS (3-6 samanlagt)

Djurgården 2 - 0 Rijeka (4-1 samanlagt)

Viborg 1 - 0 Suduva (2-0 samanlagt)