fös 29.júl 2022
Everton í viðræðum um að fá Gueye aftur frá PSG

Fabrizio Romano greinir frá því að Everton sé komið í viðræður við Frakklandsmeistara Paris Saint-Germain um senegalska miðjumanninn Idrissa Gana Gueye.Gueye var lykilmaður hjá Everton þegar PSG ákvað að festa kaup á honum sumarið 2019.

Gueye hefur spilað 111 leiki á þremur árum í París, þar á meðal 33 á síðustu leiktíð, en félagið telur sig ekki hafa not fyrir hann lengur og vill selja hann sem fyrst.

Gueye á aðeins eitt ár eftir af samningi sínum við PSG og er mögulegt að PSG þurfi að borga part af launum miðjumannsins til að selja hann.

PSG borgaði um 25 milljónir punda fyrir Gueye fyrir þremur árum en leikmaðurinn verður 33 ára í september og mun ekki kosta mikið fyrir Everton.

Gueye var hjá Everton í þrjú ár og spilaði 108 leiki fyrir félagið, þar af 99 í ensku úrvalsdeildinni.