fös 29.júl 2022
„Reyndar alveg sama hvort hann skrifi undir hjá United eða ekki"
Gary Neville.
Frenkie de Jong.
Mynd: Getty Images

Barcelona skuldar gríðarlega stórar fjárhæðir.
Mynd: Getty Images

Gary Neville, fyrrum leikmaður Manchester United, hefur síðustu daga látið Barcelona heyra það á samfélagsmiðlum.

Hann er ekki sáttur með þeirra stefnu í sumar. Barcelona hefur eytt meira en 150 milljónum punda í sumar í Raphinha frá Leeds, Robert Lewandowski frá Bayern München og nú síðast Jules Kounde frá Sevilla. Þá hefur félagið einnig samið við nokkra leikmenn á frjálsri sölu.

Félagið skuldar um milljarð punda en er samt búið að finna leiðir til þess að bæta við leikmönnum í sinn hóp.

Sjá einnig:
Leggur til að De Jong fari í mál við Barcelona

Barcelona er að eyða miklum fjárhæðum í leikmenn en á sama tíma skuldar félagið leikmönnum sem voru fyrir hjá Katalóníustórveldinu háar fjárhæðir í laun. Miðjumaðurinn Frenkie de Jong er á meðal þeirra sem á inni laun hjá félaginu; hann er sagður eiga 17 milljónir evra inni í ógreidd laun.

Barcelona hefur verið að reyna að losa sig við De Jong í sumar, en það að Barcelona skuldi honum stóra upphæð flækir málin verulega því það þarf að nást samkomulag um þennan pening ef hann fer annað. Barcelona hefur einbeitt sér að því að kaupa nýja leikmenn í staðinn fyrir að borga þeim sem eru fyrir hjá félaginu. Samkvæmt Telegraaf í Hollandi þá ætlar De Jong ekki að fara fyrr en hann fær peninginn sem hann á inni hjá félaginu.

Barcelona hefur þá nýverið reynt að fá De Jong til að taka á sig 50 prósent launalækkun - ofan á peninginn sem félagið skuldar honum - svo hægt sé að skrá nýja leikmenn í hópinn.

Er sama hvort De Jong fari í Man Utd
De Jong hefur verið sterklega orðaður við Manchester United, félagið sem Neville spilaði allan sinn feril fyrir. En fyrrum bakvörðurinn segir það ekki vera aðalmálið í því af hverju hann heldur áfram að láta Barcelona heyra það á samfélagsmiðlum.

„Mér er reyndar alveg sama hvort hann skrifi undir hjá United eða ekki. Ég er hins vegar með mikla ástríðu fyrir því að félög komi vel fram við starfsfólk sitt. Barca er til skammar og er að skíta út sitt frábæra nafn," skrifar Neville.

Samkvæmt vefmiðlinum Goal þá bauðst Barcelona til þess að borga De Jong upphæð sem er mikið lægri en sú sem félagið skuldar honum. Neville sagði nýverið að miðjumaðurinn ætti að fara í mál við Barcelona og miðað við framkomuna í hans garð, þá er klárlega hægt að færa rök fyrir því að hann eigi að gera það.

Sjá einnig:
Barcelona í risastóru fjárhættuspili - Mun það ganga upp?