fös 29.júl 2022
Özil fer á Kópavogsvöll, ekki Laugardalsvöll, ef hann mætir til landsins
Mesut Özil.
Lucas Biglia (hér númer 5) í leik með Argentínu gegn Íslandi á HM.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Breiðablik og Víkingur munu bæði taka þátt í þriðju umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar.

Þetta er frábært fyrir íslenskan fótbolta og er það nú þegar orðið ljóst að við verðum með fjögur lið í Evrópukeppnum árið 2024.

Breiðablik komst á þetta stig Sambandsdeildarinnar í fyrra og þurfti þá að spila á Laugardalsvelli. Kópavogsvöllur, heimavöllur Breiðabliks, uppfyllir ekki allar kröfur UEFA um leikstað. Kröfurnar eru meiri þegar komið er þetta langt í keppninni. Breiðablik sótti um undanþágu í fyrra en Aberdeen hafnaði því að leikurinn yrði færður.

Fréttamaður Fótbolta.net hafði samband við Eystein Pétur Lárusson, framkvæmdastjóra Breiðablik, núna áðan og spurði hann út í það hvort leikið yrði á Kópavogsvelli á þessu stigi keppninnar í ár, og staðfesti hann að svo yrði. Blikar hefðu fengið leyfi til þess.

Næsti andstæðingur Blika er Istanbul Basaksehir frá Tyrklandi og er það því ljóst að Mesut Özil gæti leikið listir sínar á gervigrasinu á Kópavogsvelli, ef hann mætir. Özil, sem er fyrrum leikmaður Arsenal og Real Madrid, gekk nýverið í raðir Basaksehir.

Lucas Biglia, fyrrum landsliðsmaður Argentínu, og Nacer Chadli, sem lék eitt sinn fyrir Tottenham, eru einnig á meðal leikmanna tyrkneska liðsins.

Víkingur mun einnig spila á heimavelli í Víkinni en andstæðingar þeirra eru Lech Poznan frá Póllandi.

Báðir heimaleikir verða 4. ágúst og seinni leikirnir verða ytra viku síðar.