fös 29.júl 2022
Liðu 24 ár á milli leikja Bjarka Más - Bæði jafntefli gegn Ægi

Bjarki Már Árnason tók við stjórn Reynis Sandgerðis í 2. deild karla rétt fyrir síðustu mánaðamót og hefur fallbaráttuliðið gert fjögur jafntefli og tapað einum í fyrstu fimm leikjunum undir hans stjórn.Síðasta miðvikudag gerði Reynir jafntefli við toppbaráttulið Ægis í Þorlákshöfn og fór hinn 44 ára gamli Bjarki Már sjálfur inn á völlinn á lokakafla leiksins þegar Reynir var 1-0  undir. Magnús Magnússon gerði jöfnunarmark fyrir Reyni í uppbótartíma og tryggði stig sem gæti reynst dýrmætt þegar byrjar að hausta.

Það sem gerir þetta merkilegt er að Bjarki Már hefur áður leikið fyrir Reyni en 24 ár eru liðin frá síðasta leik hans fyrir félagið. Ekki nóg með það heldur voru síðustu andstæðingarnir fyrir 24 árum einmitt Ægismenn í leik sem endaði með 4-4 jafntefli. Reynismenn gerðu jöfnunarmark í uppbótartíma í þeim leik, alveg eins og gerðist í vikunni.

Bjarki Már er goðsögn í neðri deildum íslenska boltans þar sem hann á yfir 330 leiki að baki í íslenska deildakerfinu. Hann á einn leik í efstu deild, sem var fyrsti leikur ferilsins árið 1997 með Keflavík, og yfir 50 leiki í öllum öðrum deildum frá næstefstu deild til neðstu deildar.

Reynir er með 7 stig eftir 14 umferðir og þarf að sigra nokkra leiki í röð til að komast úr fallsæti. Liðið var aðeins með 3 stig eftir 9 umferðir þegar Luka Jagacic var rekinn.