sun 31.júl 2022
Dortmund að ganga frá kaupum á Simeone
Giovanni Simeone
Argentínski framherjinn Giovanni Simeone er að ganga í raðir Borussia Dortmund frá Hellas Verona en þetta kemur fram í ítölskum miðlum í dag.

Dortmund neyddist til að fara aftur á markaðinn og finna nýjan framherja eftir að Sebastien Haller greindist með æxli í eistum fyrr í þessum mánuði.

Hann var keyptur frá Ajax í sumar en mun nú einbeita sér að því að ná bata og er ómögulegt að segja til um hvenær hann snýr aftur á völlinn.

Dortmund þurfti því að hafa hraðar hendur til fá framherja í stað hans en það má gera ráð fyrir því að Simeone gangi í raðir félagsins á næstu dögum.

Fulltrúar frá Dortmund munu ferðast til Ítalíu á fimmtudag til að ganga frá kaupum á Simeone, sem er elsti sonur Diego Simeone, þjálfara Atlético Madríd.

Hann skoraði 17 mörk í Seríu A með Hellas Verona á síðustu leiktíð en Juventus hefur einnig sýnt áhuga á að fá hann í sumar.