mán 01.ágú 2022
Fulham valdi Leno framyfir Neto - Balogun til Frakklands

Þýski markvörðurinn Bernd Leno er að ganga í raðir Fulham eftir að félagið náði samkomulagi bæði við Arsenal um kaupverð og leikmanninn sjálfan um samning.Fulham gat fengið Leno eða Neto til sín í sumar og var Leno alltaf ofar á óskalistanum þrátt fyrir að kosta nokkrar auka milljónir.

Hinn þrítugi Leno var aðalmarkvörður Arsenal í þrjú ár áður en Aaron Ramsdale var keyptur og hrifsaði byrjunarliðssætið til sín. Fulham er talið borga um 8 milljónir punda fyrir hann.

Leno er ekki eini leikmaðurinn sem er að yfirgefa herbúðir Arsenal í sumar því enska ungstirnið Folarin Balogun er á leið til Frakklands á lánssamningi. Balogun mun leika fyrir Stade de Reims sem endaði í tólfta sæti frönsku deildarinnar á síðustu leiktíð.

Balogun er 21 árs með 6 mörk í 11 leikjum fyrir U21 landslið Englands. Hann var lánaður til Middlesbrough á síðustu leiktíð þar sem hann skoraði þrjú mörk og gaf þrjár stoðsendingar í átján leikjum í Championship.