mán 01.ágú 2022
Rodgers: 40 milljónir ekki nóg til að kaupa vinstri fótlegginn hans Maddison

James Maddison er eftirsóttur leikmaður eftir að hafa skorað 18 mörk í 53 leikjum með Leicester á síðustu leiktíð.Hinn 25 ára gamli Maddison á tvö ár eftir af samningi sínum við Leicester og segir Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Leicester, að leikmaðurinn sé ekki til sölu.

Newcastle United bauð 40 milljónir punda í Maddison á dögunum en Leicester hafnaði því tilboði strax.

„Hann er gífurlega mikilvægur leikmaður fyrir okkur. Honum líður vel hérna og þetta er ekki leikmaður sem við viljum selja. Hann er að eiga frábært undirbúningstímabil," sagði Rodgers.

„Það er ekki ég sem set verðmiða á leikmennina en þessar 40 milljónir eru ekki einu sinni nóg til að kaupa vinstri fótlegginn hans James. Við erum að ræða um topp leikmann." 

Maddison er réttfættur.