mán 01.ágú 2022
Barca selur 25% hlut í Barca Studios fyrir 100 milljónir

FC Barcelona hefur hrint af stað meiriháttar fjármögnunaraðgerðum í sumar og er búið að selja ýmsa hluti í félaginu.Börsungar seldu til að mynda 25% af sjónvarpsrétti sínum næstu 25 árin í La Liga til Sixth Street fyrir rúmlega 520 milljónir evra. Félagið mun því ekki fá borgað fyrir 25% af sjónvarpsrétti sínum næsta aldarfjórðunginn.

Núna er stjórnin búin að selja 25% hlut í Barca Studios sem sér um allt myndefni tengt félaginu. Rafmyntafyrirtækið Socios.com, sem er meðal helstu styrktaraðila Barca, keypti hlutinn fyrir 100 milljónir evra.

Þessar 100 milljónir ættu að hjálpa Börsungum við að skrá nýja leikmenn sína til leiks í La Liga á næstu leiktíð. Robert Lewandowski, Raphinha og Jules Kounde eru til að mynda ekki skráðir vegna halla í fjármálum Börsunga á árinu sem 100 milljónir myndu laga.

Stjórn Barcelona kaus að selja allt að 49% hlut í Barca Studios og gæti því selt fleiri hluti á næstu vikum.

Fyrr á árinu seldu Börsungar nafnið á leikvangi sínum, Camp Nou, til Spotify og gildir samningurinn, sem er um 280 milljón evra virði, til fjögurra ára.