mán 01.ágú 2022
Ten Hag telur Ronaldo ekki vera tilbúinn fyrir úrvalsdeildina

Erik ten Hag, knattspyrnustjóri Manchester United, var spurður hversu langt frá því að vera tilbúinn til að spila úrvalsdeildarfótbolta hann teldi Cristiano Ronaldo vera.Ronaldo hefur misst af öllu undirbúningstímabili Man Utd og mætti á sína fyrstu æfingu og æfingaleik fyrir og um helgina.

„Ég get ekki sagt til um hvar hann er nákvæmlega á þessu augnabliki en hann er klárlega ekki á sama stað og liðsfélagarnir því hann missti af mörgum vikum," sagði Ten Hag.

„Hann þarf að spila fótbolta og æfa mjög mikið."

Ronaldo er sagður vilja snúa aftur til Sporting CP í heimalandinu til að spila í Meistaradeildinni. Hann er þó samningsbundinn Rauðu djöflunum og gæti reynst mikilvægur á tímabilinu ef hann verður ekki seldur.

Man Utd mætir Brighton í fyrstu umferð enska deildartímabilsins á sunnudaginn.