þri 02.ágú 2022
Real Madrid hvetur Ruiz til að vera hjá Napoli út samninginn

Carlo Ancelotti hefur miklar mætur á Fabian Ruiz og vill fá spænska miðjumanninn til Real Madrid þegar samningur hans við Napoli rennur út.Real Madrid hefur áhuga á Ruiz en er ekki reiðubúið til að borga alltof hátt kaupverð fyrir leikmann með eitt ár eftir af samningi.

Ruiz er 26 ára og á 15 leiki að baki fyrir spænska landsliðið eftir að hafa verið lykilmaður í U23 liðinu.

Napoli borgaði 30 milljónir evra fyrir Ruiz sumarið 2018 til að virkja söluákvæðið í samningi hans því Real Betis neitaði að selja hann fyrir minna.

Það eru fleiri félög sem hafa áhuga á Ruiz en það virðist ansi ólíklegt að hann muni skrifa undir nýjan samning við Napoli að svo stöddu.

Spænskir fjölmiðlar segja að leikmaðurinn sé búinn að fá þau skilaboð frá Madríd að vera áfram hjá Napoli út tímabilið og bíða eftir samningslokum á næsta ári. Þá getur hann skipt um félag á frjálsri sölu og fengið að spreyta sig undir stjórn gamla læriföðursins á ný.

Ruiz hefur spilað 166 leiki á fjórum árum hjá Napoli og skorað 22 mörk.