þri 02.ágú 2022
Evróputekjur íslensku liðanna nálgast þá upphæð sem ríkið setur í íþróttir
Úr viðureign Víkings og Malmö.
Víkingur og Breiðablik eru að leika í forkeppni Sambandsdeildarinnar í vikunni. Bæði félög eru að fá inn miklar tekjur með árangri sínum í Evrópukeppnum og einnig að vinna inn stig sem koma íslensku deildinni í betri mál á styrkleikalista UEFA.

Með árangrinum í sumar er ljóst að Ísland endurheimtir fjórða Evrópusæti sitt og því leikið um fjögur Evrópusæti á næsta ári.

„Staðan er orðin sú að þær þjóðir sem eru fyrir neðan okkur í dag (á lista UEFA) eru allar fallnar úr leik. Þetta hefur verið góður árangur hjá íslensku liðunum, sá besti í mörg ár. Það eru hrikalega erfið verkefni framundan en þetta er ekki endilega útilokað. Ég vona að liðin haldi áfram að safna stigum og afla peninga inn í hreyfinguna. Þetta skiptir hrikalega miklu máli," segir Þórir Hákonarson, fyrrum framkvæmdastjóri KSÍ, en hann var gestur í útvarpsþættinum Fótbolti.net síðasta laugardag.

„Eins og staðan er í dag eru íslensku félögin búin að afla sirka 330 milljónum króna inn í íslenska fótboltahreyfingu á þessu ári. Það er að nálgast það að vera jafnmikið og ríkisvaldið setur í afrekssjóð á hverju ári, fyrir allar íþróttir og alla íþróttamenn á Íslandi," segir Þórir.

„Þetta er auðvitað ekki alveg lokað hagkerfi en er það að vissu leyti, Þetta gefur félögunum tækifæri á að kaupa efnilega leikmenn frá öðrum félögum á hærri upphæðir sem dæmi. Ég held að á endanum komi þetta öllum til góða. Ég er hrikalega hrifinn af þessari Sambandsdeild, hver umferð vekur meiri athygli á íslenskan fótbolta og vonandi eykur það verðmæti deildarinnar og leikmanna til lengri tíma."

„Eins og staðan eru Víkingar komnir með 1 milljón og 210 þúsund evrur, sem eru svona sirka 170 milljónir íslenskra króna. Ef þeir fara í umspilið eru þeir að bæta við 300 þúsund evrum í viðbót. Breiðablik er komið í 850 þúsund evrur, um 120 milljónir, og KR-ingar skiluðu 250 þúsund evrum eða 35 milljónum sirka."

Á fimmtudagskvöld munu Víkingur og Breiðablik leika heimaleiki sína í 3. umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar. Bæði lið eiga mjög erfið verkefni fyrir höndum. Víkingur mun leika gegn Lech Poznan frá Póllandi og Breiðablik leikur gegn Istanbul Basaksehir frá Tyrklandi.