þri 02.ágú 2022
PSG og Lille ná saman um Sanches
Renato Sanches
Paris Saint-Germain hefur komist að samkomulagi við Lille um kaup á portúgalska miðjumanninum Renato Sanches, en það er L'Equipe sem fullyrðir þetta seint í kvöld.

Félögin hafa lengi verið í viðræðum um Sanches en Lille hafnaði fyrst lánstilboði PSG.

PSG hefði þá fengið Sanches á láni út tímabilið og myndi svo greiða Lille 36 milljónir evra og hefði sú upphæð verið dreifð yfir nokkur ár en Lille leist ekkert á það.

L'Equipe segir í kvöld að Lille hafi hins vegar samþykkt 15 milljón evra tilboð í Sanches og fær félagið alla upphæðina greidda við undirskrift.

Gini Wijnaldum er að ganga til liðs við Roma á láni frá PSG og kemur því Sanches inn fyrir hann.

Ítalska félagið Milan var lengi vel á eftir Sanches en leikmaðurinn var ákveðinn í að ganga til liðs við Frakklandsmeistara PSG.