mið 03.ágú 2022
Argentína, Síle, Úrúgvæ og Paragvæ sækja saman um HM 2030
Fulltrúar Conmebol, Argentínu, Síle, Úrúgvæ og Paragvæ sameinuðust á fréttamannafundi.
Argentína, Síle, Úrúgvæ og Paragvæ hafa tekið höndum saman og sótt sameiginlega um að halda HM 2030. Úrúgvæ hélt fyrsta heimsmeistaramótið í sögunni 1930 og segir rétt að taka mótið 'heim' á hundrað ára afmælinu.

„Þetta er draumur heillar heimsálfu. Það verða fleiri heimsmeistaramót en það verður bara eitt 100 ára afmæli og það verður að vera haldið heima," segir Alejandro Dominguez, forseti Conmebol (fótboltasambands Suður-Ameríku).

Spánn og Portúgal hafa einnig lagt fram sameiginlega umsókn um að halda HM 2030 en FIFA stefnir á að ákveðið verði 2024 hvar mótið verður haldið.

Seinna á þessu ári verður HM í Katar en árið 2026 verður mótið haldið í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó.

Bretlandseyjar og Írland ræddu um að sækjast eftir því að halda HM 2030 en ákvað á fundi sínum að leggja frekar áherslu á að fá Evrópumótið 2028.