mið 03.ágú 2022
Ekki kominn dómur í máli Brazell - Næsti leikur á föstudag
Chris Brazell.
Mál Chris Brazell, þjálfara Gróttu, er á borði KSÍ og er enn verið að vinna í því máli.

Aganefnd KSÍ kom saman í gær og eftir þann fund var það ekki gefið út hvort Brazell væri á leið í leikbann eða ekki.

Brazell hegðaði sér illa eftir leik Gróttu gegn HK í Lengjudeildinni. Samkvæmt heimildum Fótbolta.net beið Brazell fyrir utan klefana í klukkustund eftir leik og vildi ná tali af Erlendi Eiríkssyni, dómara leiksins.

Framkoma hans í garð starfsfólks HK var ekki til fyrirmyndar samkvæmt heimildarmanni Fótbolta.net. Þegar fólk var að búa sig undir að loka Kórnum var Brazell vísað út úr húsinu en þá beið hann fyrir utan. Erlendur fékk á endanum fylgd gæslufólks út úr húsinu.

HK vann umræddan leik 2-1 en mikill hiti var í þjálfarateymi Gróttu meðan á leik stóð, og einnig eftir hann.

Vonast er til þess að það verði komin niðurstaða í málið fyrir helgi en ef svo verður ekki þá verður Brazell væntanlega á hliðarlínunni gegn KV þar sem hann fékk aðeins gult spjald gegn HK. Þannig er það skráð á skýrslunni.

Grótta er sem stendur í fjórða sæti Lengjudeildarinnar, átta stigum á eftir HK sem er í öðru sæti.