lau 06.ágú 2022
Selma Sól á skotskónum í stórsigri - Kristall þreytti frumraun sína
Selma Sól skoraði fyrir Rosenborg
Kristall Máni spilaði sinn fyrsta leik fyrir Rosenborg
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Mikael Egill kom við sögu í bikarsigri Spezia
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Íslendingarnir í Rosenborg í Noregi fögnuðu sigri í bæði karla- og kvenna liði félagsins en Selma Sól Magnúsdóttir skoraði í 5-0 sigri á Roa á meðan Kristall Máni Ingason spilaði sinn fyrsta leik fyrir karlaliðið í 2-1 sigri á Ham-Kam.

Selma var eins og venjulega í byrjunarliði Rosenborg og gerði fimmta og síðasta mark liðsins þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum en nokkrum mínútum síðar var henni skipt af velli. Rosenborg er í 2. sæti norsku deildarinnar með 38 stig, tveimur stigum frá toppliðinu.

Kristall Máni Ingason gekk í raðir karlaliðsins á dögunum og spilaði sinn fyrsta leik í 2-1 sigri á Ham-Kam í kvöld. Hann kom inná sem varamaður á 66. mínútu leiksins. Rosenborg er í 4. sæti með 31 stig.

Alfons Sampsted lék allan leikinn er Noregsmeistarar Bodö/glimt völtuðu yfir Odd, 7-0. Bodö er í 3. sæti með 34 stig, fimm stigum frá toppliði Molde.

Mikael áfram en Hjörtur úr leik

Hjörtur Hermannsson og félagar hans í Pisa eru úr leik í ítalska bikarnum eftir 4-1 tap fyrir Brescia. Hjörtur spilaði allan leikinn í hjarta varnarinnar hjá Pisa.

Mikael Egill Ellertsson fagnaði betri árangri en hann kom inn af bekknum hjá Spezia sem vann Como, 5-1. Mikael kom inná á 77. mínútu leiksins.

Daníel Leó Grétarsson lék allan leikinn í vörn Slask Wroclaw sem gerði markalaust jafntefli við Widzew Lodz. Slask er í 8. sæti með 5 stig.

Jón Daði Böðvarsson kom inná sem varamaður á 70. mínútu er Bolton Wanderers vann Wycombe Wanderers 3-0 í ensku C-deildinni en þetta var önnur umferð deildarinnar. Bolton er í 3. sæti með 4 stig.

Elías Már Ómarsson kom einnig inná sem varamaður er Nimes gerði 1-1 jafntefli við St. Etienne í frönsku B-deildinni. Hann kom við sögu á 64. mínútu en þetta var fyrsta stig Nimes á tímabilinu.

Elísabet Gunnarsdóttir og stöllur hennar í Kristianstad unnu 2-0 sigur á Kalmar í sænsku úrvalsdeildinni. Amanda Andradóttir var í byrjunarliði Kristianstad en fór af velli á 66. mínútu. Emelía Óskarsdóttir kom inná sem varamaður á 84. mínútu. Kristianstad er í 2. sæti deildarinnar með 36 stig.