þri 09.ágú 2022
Torino og West Ham ná samkomulagi um Vlasic - Miranchuk á leiðinni
Vlasic í baráttu gegn Raheem Sterling.
Miranchuk hefur ekki tekist að sanna sig með Atalanta en gæti fengið aðra tilraun með nýju upphafi hjá Torino.
Mynd: Getty Images

Torino þarf að styrkja sóknarlínuna eftir að hafa misst Andrea Belotti frá sér á frjálsri sölu í sumar.Ítalska félagið er búið að ná samkomulagi við West Ham um lánssamning fyrir króatíska miðjumanninn Nikola Vlasic, með 15 milljón evru kaupmöguleika næsta sumar.

Vlasic er 24 ára sóknarsinnaður miðjumaður sem var lykilmaður í liði CSKA Moskvu áður en Hamrarnir keyptu hann til Englands. Hann var hjá Everton áður en hann var fenginn yfir til Rússlands.

Honum tókst ekki að sanna sig í enska boltanum, hvorki sem tvítugur leikmaður Everton né á síðustu leiktíð með West Ham þar sem hann skoraði aðeins eitt mark í 31 leik.

Vlasic á 7 mörk í 39 landsleikjum með Króatíu en þar áður skoraði hann 33 mörk í 108 leikjum með CSKA.

Torino er búið að kaupa Pietro Pellegri frá Mónakó í sumar og tryggja sér kantmennina Valentino Lazaro og Nemanja Radonjic á lánssamningum.

Aleksei Miranchuk er einnig á leið til félagsins frá Atalanta. Líklegt er að hann komi á lánssamningi með kaupmöguleika.

Miranchuk er 26 ára Rússi sem var keyptur til Atalanta fyrir um 15 milljónir evra en hefur ekki tekist að festa sig í sessi í byrjunarliðinu eftir tvö ár hjá félaginu.

Miranchuk hefur skorað 9 mörk í 56 leikjum með Atalanta og leikur sem sóknartengiliður að upplagi en getur einnig spilað á hægri kanti eða í fremstu víglínu.