sun 14.ágú 2022
Arteta aldrei séð annað eins eftir sjálfsmark Saliba

Arsenal mætti Leicester City í gær og hafði liðið betur með fjórum mörkum gegn tveimur í frábærum leik.



Gabriel Jesus fór á kostum í liði Arsenal en hann skoraði tvö mörk og lagði upp önnur tvö. Arsenal er nú með sex stig eftir fyrstu tvo leikina og markatöluna 6-2.

Franski miðvörðurinn William Saliba er búinn að vinna sig inn í liðið hjá Arsenal en hann var frábær í fyrsta leiknum gegn Crystal Palace þar sem hann var valinn maður leiksins í 0-2 útisigri.

Saliba varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark í gær í stöðunni 2-0 og því komst Leicester aftur inn í leikinn með sjálfsmarki hans. Arsenal var þó mjög snöggt að svara og koma stöðunni strax í 3-1 með marki frá Granit Xhaka.

Stuðningsmenn Arsenal á vellinum studdu Saliba af krafti eftir sjálfsmark hans og segir Arteta að hann hafi ekki séð önnur eins viðbrögð á ferlinum.

„Það sem stuðningsmennirnir gerðu fyrir Saliba (klappa fyrir honum og hvetja) eftir sjálfsmarkið hans er eitthvað sem ég hef aldrei séð á mínum ferli,” sagði Arteta.

„Ég held að þessi viðbrögð hafi hjálpað Saliba með sjálfstraustið.”