mán 15.ágú 2022
Tuchel: Come on strákar, það gerðist ekkert slæmt
Tuchel sleppti ekki takinu.

Thomas Tuchel knattspyrnustjóri Chelsea var svekktur eftir 2-2 jafntefli gegn Tottenham í gær. Chelsea sýndi yfirburði á vellinum en tókst ekki að krækja í stigin þrjú.Tuchel var ósáttur með dómgæsluna þar sem hann telur bæði jöfnunarmörk Tottenham hafa verið ólögleg. Hann var orðinn nokkuð æstur á meðan á leiknum stóð og endaði á að takast á við kollega sinn á hinum bekknum, Antonio Conte, í tvígang svo skilja þurfti mennina að.

„Fótbolti er tilfinningaþrungin íþrótt, það þarf ekki að gera meira úr þessu. Við erum tilfinningaríkir þjálfarar á hliðarlínunni, það er mikið keppnisskap og 'come on' strákar, það gerðist ekkert slæmt," sagði Tuchel, sem fagnaði seinna marki Chelsea af mikilli innlifun beint fyrir framan nefið á Conte.

„Í miðjum fagnaðarlátunum hugsaði ég að kannski ætti ég ekki að vera að þessu en stundum þá verður maður bara partur af leiknum og það gerðist hérna. Ég lifði mig svo mikið inn í leikinn. Þetta móðgaði kannski andstæðingana okkar en þeir gerðu nákvæmlega það sama þegar þeir jöfnuðu.

„Ég erfi þetta ekki við Conte. Mér líður eins og þetta hafi bara verið lögleg tækling frá honum og svo lögleg tækling frá mér. Við móðguðum ekki hvorn annan og við slógum ekki til hvors annars. Við vorum að berjast fyrir liðin okkar og af minni hálfu þá erfi ég þetta ekki við hann. Ég er í raun hissa að við höfum báðir fengið rautt spjald fyrir þetta."

Sjá einnig:
Sjáðu handabandið sem fór úr böndunum
Tuchel: Hvorugt markið átti að standa
England: Sauð uppúr í fjörugu jafntefli á Brúnni