þri 16.ágú 2022
Úlfarnir að gera allt í sínu valdi til að halda Neves

Portúgalski miðjumaðurinn Ruben Neves er hátt skrifaður hjá mörgum af stærstu félögum enska boltans en hann er samningsbundinn Wolves og vill félagið alls ekki missa hann frá sér.Neves er 25 ára gamall og á tvö ár eftir af samningi sínum við Úlfana. Manchester City, Manchester United, Barcelona og PSG eru meðal félaga sem hafa verið orðuð við leikmanninn en verðmiði Wolves hefur fælt alla mögulega kaupendur frá til þessa.

Úlfarnir eru sagðir vilja meira en 60 milljónir punda fyrir Neves sem á 30 landsleiki að baki fyrir Portúgal.

„Ég er svo ánægður að Ruben Neves sé ennþá með okkur. Við erum að vinna í að bjóða honum nýjan samning," sagði Bruno Lage, knattspyrnustjóri Úlfanna.

„Stuðningsmenn syngja söngva um að halda Ruben hjá félaginu og við erum að gera allt í okkar valdi til að halda honum í sumar."

Neves er afturliggjandi miðjumaður sem sérhæfir sig í að dreifa spilinu og er með einstaklega eitraða hægri löpp.