mið 17.ágú 2022
Án tveggja leikmanna gegn West Ham sem fengu ekki vegabréfsáritun
Alassana Jatta.
Tveir afrískir leikmenn danska liðsins Viborg gátu ekki ferðast í leikinn gegn West Ham. Þeir fengu ekki vegabréfsáritun vegna Brexit reglna fyrir ríkisborgara utan Evrópu.

Á morgun tekur West Ham á móti Viborg í fyrri viðureign liðanna í umspili fyrir riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.

Nígeríski vængmaðurinn Ibrahim Said og gambíski framherjinn Alassana Jatta gátu ekki ferðast með Viborg og urðu eftir í Danmörku.

Í yfirlýsingu danska félagsins segir að allt hafi verið reynt og það rætt við danska fótboltasambandið, UEFA, sendiráð og annað erlent félag sem er í svipuðum vandamálum.

„Því miður hefur þetta reynst ómögulegt, ferlið tekur einhverjar vikur og viðureignin var bara sett á fyrir einni viku síðan," segir í yfirlýsingu Viborg.

Jesper Fredberg, íþróttastjóri Viborg, segir að það sé vont frá íþróttalegu sjónarmiði að vera án tveggja leikmanna sem hefðu spilað hlutverk í leiknum. Einnig sé þetta leiðinlegt því leikmennirnir missi þarna af frábærri reynslu og upplifun með því að spila Evrópuleik á Lundúnaleikvangnum.