fim 18.ágú 2022
Man Utd til í að tvöfalda laun Casemiro til að fá hann frá Real Madrid
Manchester United vill fá brasilíska miðjumanninn Casemiro frá Real Madrid og hefur gert tilboð upp á um 60 milljónir punda.

Þessi þrítugi leikmaður verður einn launahæsti leikmaður United ef hann ákveður að ganga í raðir félagsins. Enska félagið er sagt tilbúið að tvöfalda laun hans.

Casemiro er einn besti varnartengiliður heims og Erik ten Hag vill fá hann til að leysa vandræðin á miðsvæði United.

Hann hefur spilað 222 leiki fyrir spænsku risana og skorað 24 mörk.

Manchester United er stigalaust á botni ensku úrvalsdeildarinnar eftir tvær umferðir. Einhverjir fjölmiðlar hafa sagt að Casemiro hafi ekki áhuga á að ganga í raðir félagsins.