fim 18.ágú 2022
Lengjudeildin: Öruggt hjá Kórdrengjum - Stórkostleg skemmtun í Grafarvogi
Hans Viktor Guðmundsson skoraði tvívegis fyrir Fjölni
Arnleifur Hjörleifsson var frábær í sigri Kórdrengja
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Luke Rae gerði sigurmark Gróttu gegn Þrótturum
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson

Fjölnir vann magnaðan 4-3 sigur á Grindavík er liðin mættust á Extra-vellinum í Grafarvogi í Lengjudeild karla í kvöld. Á sama tíma unnu Kórdrengir öruggan 4-0 sigur á Vestra. Þá lagði Grótta lið Þróttar V., 1-0.

Það var sannkölluð markaveisla í Grafarvogi er Fjölnir tók á móti Grindavík.

Kenan Turudija braut ísinn fyrir Grindvíkinga á 6. mínútu og tveimur mínútum síðar tvöfaldaði Aron Jóhannsson forystuna fyrir gestina.

Heimamenn náðu að klóra sig inn í leikinn á 10. mínútu er Dofri Snorrason minnkaði muninn með þéttingsföstu skoti í vinstra hornið.

Hans Viktor Guðmundsson jafnaði metin með skalla eftir hornspyrnu eftir hálftímaleik. Fjörugur leikur á Extra-vellinum en staðan var 2-2 í hálfleik.

Kairo Edwards-John var hársbreidd frá því að skora stórkostlegt mark á 52. mínútu en hjólhestaspyrna hans hafnað í þverslánni. Sjö mínútum síðar náðu þó Grindvíkingar forystunni aftur og það í gegnum Kristófer Pál Viðarsson. Dagur Ingi Hammer Gunnarsson átti fyrirgjöf á fjærstöng og þar var Kristófer réttur maður á réttum stað og afgreiddi boltann í netið.

Fjölnismenn náðu ótrúlegum viðsnúningi á þremur mínútum. Það var varamaðurinn Viktor Andri Hafþórsson sem jafnaði metin á 66. mínútu áður en Hans Viktor gerði annað mark sitt í leiknum eftir hornspyrnu Reynis Haraldssonar. Boltinn datt fyrir Hans í teignum sem tók hann viðstöðulaust. Undir lok leiksins fékk Viktor Guðberg Hauksson, leikmaður Grindavíkur, rautt spjald er hann fleygði sér í tæklingu eftir að dómari leiksins hafði flautað.

Lokatölur í Grafarvogi, 4-3, Fjölni í vil. Liðið er í 3. sæti með 30 stig en Grindavík í 10. sæti með 20 stig.

Stórsigur Kórdrengja

Kórdrengir unnu sannfærandi 4-0 sigur á Vestra. Sigur heimamanna var aldrei í hættu og hófst veislan strax á 5. mínútu er Arnleifur Hjörleifsson skoraði úr aukaspyrnu af 30 metra færi.

Vestramenn vildu fá vítaspyrnu á 16. mínútu er Nikolaj Madsen átti skalla í teignum en Helgi Mikael Jónasson, dómari leiksins, sá ekkert athugavert við þetta. Átta mínútum síðar kom annað mark Kórdrengja.

Morten Hansen gerði það. Hann fékk háa sendingu inn fyrir, tók hann á bringuna og lyfti boltanum yfir markvörð Vestra og í netið.

Kórdrengir töldu sig hafa skorað þriðja mark leiksins á 57. mínútu er Iosu Villar kom boltanum fyrir á Arnleif sem kom boltanum á markið. Brenton Muhammad, markvörður Vestra, náði að bjarga á síðustu stundu en Arnleifur var handviss um að boltinn hafi farið yfir línuna. Ekkert mark dæmt þó og áfram hélt leikurinn.

Þegar tuttugu mínútur voru eftir fengu Kórdrengir vítaspyrnu er Arnleifur var tekinn niður í teignum. Loic Ondo fór á punktinn og skoraði. Liðið fékk annað víti fjórum mínútum fyrir leikslok er Brenton gerðist brotlegur innan teigs. Bjarki Björn Gunnarsson skoraði úr spyrnunni.

Lokatölur 4-0 fyrir Kórdrengi sem eru í 9. sæti með 21 stig, stigi á eftir Vestra.

Þróttarar gáfu Gróttu stigin

Grótta lagði Þrótt Vogum, 1-0, er liðin mættust á Vogaídýfu-vellinum í dag.

Eina mark leiksins gerði Luke Rae á 29. mínútu leiksins. Þróttarar spiluðu boltanum aftast áður en Rae mætti í pressuna. Sú pressa skilaði sér því hann fékk boltann í sig og þaðan í netið.

Þróttarar höfðu spilað ágætis varnarleik fram að markinu og Grótta í erfiðleikum með að skapa sér færi. Í þeim síðari voru heimamenn nokkuð öflugir en náðu ekki inn jöfnunarmarki.

Grótta er í 4. sæti með 28 stig en Þróttur áfram í neðsta sæti með 6 stig.

Úrslit og markaskorarar:

Fjölnir 4 - 3 Grindavík
0-1 Kenan Turudija ('6 )
0-2 Aron Jóhannsson ('8 )
1-2 Dofri Snorrason ('10 )
2-2 Hans Viktor Guðmundsson ('31 )
2-3 Kristófer Páll Viðarsson ('59 )
3-3 Viktor Andri Hafþórsson ('66 )
4-3 Hans Viktor Guðmundsson ('69 )
Lestu um leikinn

Þróttur V. 0 - 1 Grótta
0-1 Luke Morgan Conrad Rae ('29 )
Lestu um leikinn

Kórdrengir 4 - 0 Vestri
1-0 Arnleifur Hjörleifsson ('5 )
2-0 Morten Ohlsen Hansen ('24 )
3-0 Loic Cédric Mbang Ondo ('71 , víti)
4-0 Bjarki Björn Gunnarsson ('86 , víti)
Lestu um leikinn