mán 22.ágú 2022
Óskar Hrafn: Þurfum að hvílast, sofa og borða
Óskar Hrafn Þorvaldsson

"Mér fannst við vera með stjórn á leiknum lengst af. Það vantaði aðeins upp á síðustu sendinguna í fyrri hálfleik  en heilt yfir er ég mjög sáttur. Eins og sagan sýnir okkur er ekki auðvelt verkefni að koma hingað og vinna," sagði Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks, eftir sigurinn gegn Fram í kvöld.Fjórir leikmenn Blika voru fjarverandi vegna leikbanna og meiðsla. Óskar segist ánægður með þá sem komu inn í staðinn. "Ég er mjög sáttur við þá sem komu inn. Þetta er langt mót og menn meiðast og fara í leikbönn. Þá þurfa aðrir að taka við keflinu og í kvöld var það raunin. Lið sem ætlar að spila marga leiki og vera í öllum keppnum þurfa að vera með leikmenn sem geta tekið við hver af öðrum."

Eftir mikið álag í sumar, þar sem liðið hefur spilað mikið af leikjum, eru núna sex dagar í næsta leik. Óskar segir mikilvægt að fá loksins smá frí á milli leikja."Það verður gott. Við byrjum á því að gefa frí í tvo daga. Akkúrat núna er mikilvægt að þeir komist aðeins í burtu frá Kópavogsvelli. Það verður ágætt að fá sex daga frí en enn verða að passa að missa ekki fókus. Þeir þurfa að hvílast, borða og sofa og ná þreytunni úr sér. Þetta er kærkomið bil á milli leikja end við þurfum að vera klárir gegn Leikni."