mán 29.ágú 2022
Spánn: Griezmann tryggði sigur gegn Valencia
Mynd: EPA

Það fóru tveir leikir fram í spænska boltanum í kvöld þar sem Atletico Madrid heimsótti Valencia í áhugaverðum slag.Ungt lið Valencia spilaði flottan leik og skoraði Yunus Musah eftir 24 mínútur en markið ekki dæmt gilt vegna brots í aðdragandanum sem VAR teymið tók eftir.

Valencia hélt boltanum vel en átti í erfiðleikum með að rjúfa varnarmúr Atletico sem beitti hættulegum skyndisóknum og skoraði úr einni slíkri í síðari hálfleik.

Antoine Griezmann kom inn af bekknum á 64. mínútu og skoraði skömmu seinna þegar skot hans breytti um stefni í varnarmanni og lak í netið.

Valencia fékk þokkaleg færi en undir lokin voru það gestirnir sem komust nær því að bæta við marki og niðurstaðan 0-1 sigur þökk sé marki Griezmann.

Atletico er með sex stig og Valencia þrjú eftir þessa viðureign.

Valencia 0 - 1 Atletico Madrid
0-1 Antoine Griezmann ('66)

Fyrr í kvöld átti Cadiz heimaleik gegn Athletic Bilbao og var tekið í kennslustund af gestunum.

Inaki Williams skoraði eina mark fyrri hálfleiksins og brenndi af vítaspyrnu en flóðgáttirnar opnuðust í síðari hálfleik. Gorka Guruzeta skoraði tvennu og Alex Berenguer eitt í sannfærandi fjögurra marka sigri.

Athletic er með sjö stig eftir þrjár umferðir en Cadiz er á botninum án stiga og með ekkert mark skorað.

Cadiz 0 - 4 Athletic Bilbao
0-1 Inaki Williams ('24)
0-2 Gorka Guruzeta ('56)
0-3 Alex Berenguer ('78)
0-4 Gorka Guruzeta ('93)