fim 08.sep 2022
Fagnar því að Dagný sé orðin fyrirliði - Mikilvæg í hópnum
Dagný Brynjarsdóttir.
Úrvalsdeild kvenna í Englandi hefst núna um helgina. Íslendingalið West Ham mætir Englandsmeisturum Chelsea á útivelli í fyrsta leik.

Landsliðskonan Dagný Brynjarsdóttir fer inn í tímabilið með enn stærra hlutverk þar sem hún er orðin fyrirliði. Þá er hún einnig búin að skipta um treyjunúmer og verður númer 10.

Michelle Irons, sem er svokallaður sérfræðingur um kvennalið West Ham, fagnar því að íslenska landsliðskonan sé orðin fyrirliði.

„Að mínu mati er þetta frábær ákvörðun hjá Paul Konchesky (þjálfara liðsins)," segir Irons í samtali við West Ham Zone.

„Það eru góðir kostir í hópnum en Dagný er yfirveguð og mikilvægur hluti af liðinu. Hún er með mikla reynslu og á sjaldan slæma leiki."

Það er ljóst að Dagný er orðin mjög stór hluti af liði West Ham en hún er fulltrúi liðsins í auglýsingu Sky Sports fyrir deildina.