lau 10.sep 2022
Spánn: Þriðja tapið í síðustu fjórum leikjum hjá Gattuso
Gennaro Gattuso.
Falcao kom inn af bekknum.
Mynd: EPA

Rayo Vallecano 2 - 1 Valencia
1-0 Isi Palazon ('5 )
2-0 Nicolas Gonzalez ('52 , sjálfsmark)
2-1 Mouctar Diakhaby ('90+3)Fyrsta leik dagsins í spænska boltanum er lokið en þá áttust við Rayo Vallecano og Valencia í fimmtu umferð deildarinnar.

Bæði lið eru um miðja deild sem stendur en það voru heimamenn í Vallecano sem voru öflugri í dag og tóku öll þrjú stigin úr leiknum.

Isi Palazon skoraði strax á fimmtu mínútu leiksins eftir sendingu frá Oscar Trejo og var staðan 1-0 í hálfleik fyrir þá hvítklæddu.

Nico Gonzalez, miðjumaður Barcelona sem er á láni hjá Valencia, varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net snemma í síðari hálfleiknum og staðan orðin þung fyrir gestina.

Gamla kempan Radamel Falcao kom inn á af bekknum hjá Vallecano og spilaði síðustu 20 mínúturnar eða svo.

Gestunum tókst að setja spennu í leikinn en sex mínútur voru í uppbótartíma. Á þriðju mínútu uppbótartímans tókst Mouctar Diakhaby að minnka muninn en nær komust gestirnir ekki.

Þessi úrslit þýða það að Valencia er með sex stig en liðið hefur nú undir stjórn Ítalans Gennaro Gattuso, tapa þremur af síðustu fjórum leikjum sínum.

Rayo Vallecano er með sjö stig í tíunda sæti deildarinnar.