mán 12.sep 2022
Ívar tók ekki í mál að fara af velli - „Pungurinn slapp svona mestmegnis"
Myndasería af atvikinu í gær má sjá neðst.. Egill Bjarni gaf leyfi á birtingu myndanna.
Jakob var í byrjunarliðinu í gær.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson

Jajalo steig upp í lokin.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson

Bjarni átti góða innkomu
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson

„Það er allt í góðu sko, pungurinn slapp svona mestmegnis - sem betur fer. Höggið fór eiginlega mest á spöngina, á píkubeinið. Þetta var einhver versti sársauki sem ég hef fundið á ævinni. En ég er góður í dag, svona sem betur fer," sagði Ívar Örn Árnason, leikmaður KA, við Fótbolta.net í dag.

Hægt er að hlusta á allt viðtalið í spilaranum hér að ofan.

Ívar lenti á stönginni á marki Breiðabliks eftir fast leikatriði í gær og lá eftir í talsverðan tíma, sýnilega sárkvalinn. Það hefur aldrei verið í myndinni að fara af velli?

„Ég tók það ekki í mál, það var lítið eftir og ég fékk tíma til að ná mér. Ég fann þegar sársaukinn fór aðeins að minnka að ég gat haldið áfram. Fyrst ég gat spilað þá var ekki fræðilegur að ég færi út af." Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er í lagi með stöngina.

Hafði ekki hugmynd um hver tæki vítið
KA vann leikinn 2-1 og var það Hallgrímur Mar Steingrímsson sem skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu.

„Fyrsta tilfinning var að ég hafði ekki hugmynd um hver ætlaði að taka þetta víti. Svo þegar ég sá Grímsa taka við boltanum - og hann leit út fyrir að vera með mikið sjálfstraust - þá minnkuðu aðeins áhyggjurnar. Mér fannst Anton fara snemma af línunni, Grímsi gerði bara vel og setti hann í vitlaust horn og tryggði okkur stigin þrjú ásamt Jajalo með frábærri vörslu í uppbótartíma."

Endurkoman gegn Fram
KA féll úr leik í bikarnum fyrir rúmri viku síðan og hafði þar á undan tapað gegn Víkingi þar sem sigurmarkið kom í lok leiks. Í síðasta leik náðist stig á móti Fram með dramatískri endurkomu undir lok leiks. Hversu mikilvægt var það stig?

„Ég held að það hafi sett tóninn fyrir æfingavikuna sem við áttum upp að þessum leik. Ég hef sjaldan séð jafnmikil gæði í liðinu og menn voru vel gíraðir. Við vissum alveg hvað væri í húfi í þessum leik, sérstaklega fyrir aðdáendur að Breiðablik myndi ekki bara stinga af með mótið. Það var alltaf uppleggið hjá okkur að fara inn í þennan leik og taka stigin þrjú."

„Ég held að æfingavikan hefði aldrei verið svona góð nema fyrir þessa varamenn sem komu inn á og tryggðu okkur stigið á móti Fram eftir helvíti dapran seinni hálfleik - örugglega einn þann daprasta sem við höfum spilað í allt sumar."


Ívar talar um andlegu áhrifin sem mörkin tvö í uppbótartíma gegn Fram höfðu á lið KA. Jakob Snær Árnason skoraði gegn Fram eftir sendingu frá Bjarna Aðalsteinssyni.

„Það þurfti að grafa djúpt í hópinn og það komu menn inn á sem dauðlangaði að sanna sig, við uppskárum þessi tvö mörk og Jakob sæti í byrjunarliði í einum mikilvægasta leik tímabilsins. Bjarni kom svo inn á eftir 60 mínútur sem mér fannst vera vel gert hjá þjálfurunum okkar. Bjarni er "powerhouse" með mjög mikil gæði. Hann gerði gæfumuninn fyrir okkur eftir að Andri hafði staðið sig mjög vel. Til að geta keyrt á þá undir lokin þurftum við að nýta dýptina í hópnum og uppskárum þennan fallega sigur."

Ívar var nánar spurður út í Jakob sem kom inn í liðið eftir að Nökkvi Þeyr Þórisson var seldur. Nökkvi og hans tímabil var einnig til umræðu.

Hefði örugglega gert það sama til að vernda sinn markmann
Aftur að árekstrinum við stöngina. Átti Ívar að fá vítaspyrnu?

„Það sem ég ætlaði mér að gera var svipað og ég gerði í Fram leiknum þegar Ólafur Íshólm missti boltann inn. Ég ætlaði aðeins að keyra í markmanninn - Blikar eru stórhættulegir í skyndisóknum - í versta falli ætlaði ég að keyra inn í Anton og fá aukaspyrnuna á mig. Þá hefðu allir getað skilað sér í stöðu."

„Um leið og ég hoppa upp fær ég bar 'stiff-arm' frá Viktori sem beinir mér beint að stönginni. Ég er kominn í loftið og er gjörsamlega varnarlaus. Ég veit ekki hvort þetta sé víti per se, en þetta var allavega helvíti vont. Ég skil líka Viktor alveg vel, ef þetta væri markmaðurinn minn þá myndi ég örugglega gera það sama til að vernda hann. Ég veit ekki hvort þetta sé víti en í reiði minni og sársauka í gær þá fannst mér klárlega vera víti eða gult spjald allavega á Viktor. En hann getur ekki dæmt gult spjald á hann og ekki dæmt víti. Nei, segjum bara nei,"
sagði Ívar.

Í lok viðtals tjáði Ívar sig svo um Kristijan Jajalo sem steig upp undir lok leiks.