mán 12.sep 2022
Alex Freyr útskýrði fagnið - Geggjað að vera í Eyjum
Útskýrði reyndar ekki þetta fagn.
Mér finnst þetta geggjað, ég er utan af landi og þetta líf hentar mér bara mjög vel.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Alex Freyr Hilmarsson skoraði í gær fyrra mark ÍBV í 2-2 jafntefli liðsins gegn Fram í gær. Alex fagnaði með því að klæða sig úr annarri erminni á treyju sinni og var eins og á hann vantaði hönd.

Fótbolti.net ræddi við Alex í dag og spurði hann út í fagnið.

Viðtalið í heild má nálgast í spilaranum að ofan.

„Það er gaur hérna í Eyjum sem heitir Örn Hilmisson. Hann missti hendina fyrir akkúrat 24 árum í gær. Hann sagði okkur það fyrir leik að stubburinn væri 24 ára gamall," sagði Alex.

„Hann er búinn að vera mikið í kringum fótboltann. Ég held að sagan sé þannig að hann hafi fengið leyfi til að fara af spítalanum nokkrum dögum eftir þetta og fagnaði Íslandsmeistaratitlinum með ÍBV í Frostaskjólinu fyrir 24 árum."

Í viðtalinu er Alex spurður út í stigið sem ÍBV fékk í gær og bætt gengi ÍBV frá því í upphafi móts.

Alex var að skora sitt þriðja mark í sumar en hann kom frá KR í vetur. Hann hefur verið vaxandi á tímabilinu eins og ÍBV liðið í heild. Hvernig ertu að fíla þig í Eyjum?

„Mér finnst þetta geggjað, ég er utan af landi og þetta líf hentar mér bara mjög vel. Ég náði restinni af tímabilinu í fyrra til að koma mér í eitthvað stand eftir meiðsli. Ég hef svona verið að byggja ofan á það í vetur og inn í sumarið."

„Ég er loksins í 'áttu' hlutverki sem ég er mjög hrifinn af. Ég hef ekki mikið spilað það á ferlinum, spilaði það 2019 með KR áður en ég meiddist og svo núna. Annars hef ég mikið verið notaður úti á kanti sem mér finnst ég persónulega ekki vera. Ég er bara mjög sáttur með það,"
sagði Alex.