þri 13.sep 2022
Jakob Snær er „einhver versta martröð fyrir varnarmann"
Jakob Snær í baráttunni við Damir Muminovic varnarmann Breiðabliks

Ívar Örn Árnason leikmaður KA var til viðtals hjá Fótbolta.net í gær.Ívar hefur verið gríðarlega öflugur í öftustu línu hjá KA í sumar en liðið sigraði Breiðablik á sunnudaginn sem heldur lífi í toppbaráttunni.

Jakob Snær Árnason bjargaði stigi fyrir KA þegar hann kom inná af bekknum gegn Fram og jafnaði metin í uppbótartíma. Hann var launaður með byrjunarliðssæti gegn Breiðabliki. Ívar er mjög ánægður með innkomu Jakobs.

„Það er mikivægt fyrir okkur að Jakob sé að koma inn núna því þetta er miklu lengra tímabil í ár heldur en fyrri ár og þá þurfum við að nota hvern einasta leikmann sem við höfum," sagði Ívar.

Ívar öfundar ekki varnarmenn andstæðinganna að þurfa mæta Jakobi.

„Það er ekki verra að hafa einn svona rosalegan djöflara í framlínunni. Þetta er einhver versta martröð fyrir varnarmann að hafa því hann lætur þig ekki í friði allan leikinn, hann er alltaf að keyra á þig. Það er ógeðslega mikilvægt fyrir okkur að hafa svona leikmenn sérstaklega þegar við erum með Elfar og Geira báða tæpa að geta gripið í Jakob og leyft honum að djöflast í leikmönnum. Hann gerði mikinn gæfumun fyrir okkur í gær."

Sjá einnig:
Ívar tók ekki í mál að fara af velli - „Pungurinn slapp svona mestmegnis"