þri 13.sep 2022
Ef Heimir tekur við Jamaíka: Leikmaður sem átti að verða stórstjarna
Ravel Morrison.
Heimir Hallgrímsson er sterklega orðaður við Jamaíka.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Heimir Hallgrímsson, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, er núna sterklega orðaður við landsliðsþjálfarastarfið hjá Jamaíka.

Heimir er vinsælasti þjálfari Íslands eftir frábæran árangur með íslenska landsliðið. Hann hefur verið án þjálfarastarfs síðan hann yfirgaf Al Arabi í Katar en hefur í sumar verið ráðgjafi hjá félagi sínu ÍBV í Vestmannaeyjum.

Jamaíka er eyríki í Karíbahafi og landslið þess er í 62. sæti á styrkleikalista FIFA, einu sæti ofar en íslenska landsliðið.

Í landsliðshópnum eru þekkt nöfn eins og Michail Antonio, sem spilar með West Ham, og Leon Bailey, sem spilar með Aston Villa.

Þar er líka Ravel nokkur Morrison.

Morrison er 29 ára gamall miðjumaður sem leikur núna með DC United í Bandaríkjunum en hann hefur komið víða við á ferli sínum. Hann var eitt sinn í akademíu Manchester United og þá var mikið talað um hæfileika hans. Miðað við það sem hefur verið sagt um hann, þá hefði Morrison getað orðið einn besti fótboltamaður í heimi en það hefur ekki mikið ræst úr ferli hans - allavega ekki miðað við það sem var sagt um hann á sínum tíma.

Þegar hann var 14 ára gamall sagði Sir Alex Ferguson, þáverandi stjóri Manchester United, að Morrison væri einn hæfileikaríkasti leikmaður sem hann hefði séð á því aldursbili. En Morrison spilaði bara þrjá aðalliðsleiki með Man Utd áður en hann fór til West Ham árið 2012.

Sir Alex sagði að Morrison hefði verið betri en Wayne Rooney, Rio Ferdinand og Ryan Giggs sem ungur leikmaður, en hausinn var ekki rétt skrúfaður á.

„Hann er magnaður fótboltamaður," sagði enski fótboltaþjálfarinn Ian Burchnall í samtali við Fótbolta.net í fyrra en hann vann með honum hjá Östersund í Svíþjóð fyrir nokkrum árum síðan.

„Sem manneskja er hann góður drengur, auðmjúkur og kurteis. Hann átti erfitt þegar hann var að alast upp og það getur haft áhrif á fólk. Ég hafði mjög gaman að því að vinna með honum. Hann spilaði átta leiki með okkur og við töpuðum ekki einum leik þar sem hann byrjaði. Hann fór svo til Sheffield United."

Það verður áhugavert að sjá hvernig Heimir og Morrison vinna saman, ef Heimir mun taka við landsliði Jamaíka.