þri 13.sep 2022
Allar líkur á að Grindavík verði dæmdur sigur
Selfoss tefldi fram ólöglegum leikmanni þegar liðið mætti Grindavík fyrir rúmri viku síðan. Reynir Freyr Sveinsson spilaði fyrstu 50 mínútur leiksins en hann átti að taka út leikbann í leiknum.

Sjá einnig:
Selfoss tefldi fram ólöglegum leikmanni gegn Grindavík

Reynir var á láni hjá Árborg fyrri hluta tímabilsins. Þar fékk hann þrjú gul spjöld. Hann kom síðan aftur í lið Selfoss og fékk tvö gul spjöld og þar með rautt gegn Þrótti V.

Þannig er mál með vexti að áminningin í þeim leik þurrkast út þar sem hann fékk rautt og var hann því á þremur gulum spjöldum fyrir leikinn gegn Fjölni þann 27. ágúst. Í þeim leik fékk hann gult spjald og var því kominn með fjögur guld spjöld sem gerir það að verkum að hann fær eins leiks bann vegna uppsafnaðra áminninga.

Niðurstöðu í málinu er að vænta eftir fund aga- og úrskurðarnefndar KSÍ í dag. Allar líkur eru á því að Grindavík verði dæmdur sigur í leiknum og fái því stigin þrjú úr leiknum.

Selfoss vann 5 - 3 sigur og er því liðið að öllum líkindum að missa þau þrjú stig sem liðið fékk með því að vinna leikinn.

Grindavík færi með stigunum þremur upp í 5. sæti deildarinnar og Selfoss færi niður í 10. sætið.