þri 13.sep 2022
Ný sönnunargögn líta dagsins ljós - Verður Ekvador sópað út?
Byron Castillo í leik með Ekvador.
Núna er aftur kominn upp sá möguleiki að Ekvador verði hent út af heimsmeistaramótinu sem á að fara fram í Katar í vetur.

Það voru sögur um þetta fyrr í sumar eftir að kvörtun barst frá fótboltasambandinu í Síle.

Síle kvartaði til FIFA og sagðist vera með sannanir þess efnis að Byron Castillo hafi spilað fyrir Ekvador undir fölsku fæðingarvottorði. Hann sé í raun Kólumbíumaður, fæddur í Tumaco.

FIFA, Alþjóðafótboltasambandið, var fljótt að loka þessu máli og gaf það út að engar breytingar yrðu gerðar á HM.

Núna segist Daily Mail hins vegar vera með ný sönnunargögn í málinu. Samkvæmt grein þeirra um málið þá viðurkenndi Castillo að hann hafi spilað fyrir hönd Ekvador undir fölsku flaggi, að hann sé í raun frá Kólumbíu.

Ekvador er í A-riðli á HM með heimamönnum í Katar, Senegal og Hollandi. Mótið á að hefjast í nóvember en FIFA getur í raun ekki annað en tekið á þessu. Það verður frekar vandræðalegt fyrir sambandið - eftir að það var ekki rannsakað nægilega vel fyrr í sumar - en það verður að taka á þessu. Það verður teljast líklegt að Ekvador verði sópað af HM í Katar.