þri 13.sep 2022
Meistaradeildin: Sporting kláraði Tottenham í uppbótartíma - Inter vann í Tékklandi
Frábæri sigur hjá Sporting í kvöld.
Dzeko skoraði og lagði upp.
Mynd: EPA

Tveimur leikjum var að ljúka í Meistaradeildinni en önnur umferðin hófst í dag klukkan 16:45.Í C riðli áttust við Viktoria Plzen og Inter Milan en bæði lið voru án stiga fyrir leikinn í kvöld.

Inter gerði góða ferð til Tékklands og vann leikinn með tveimur mörkum gegn engu. Edin Dzeko kom liðinu yfir í fyrri hálfleiknum en hann skoraði þá eftir sendingu frá Joaquin Correa.

Pavel Bucha fékk rautt spjald í liði heimamanna á 60. mínútu en hann straujaði þá Nicolo Barella. Denzel Dumfries gulltryggði sigur Inter tíu mínútum síðar.

Í D riðli áttust við Sporting Lissabon og Tottenham Hotspur. Leikurinn var frekar bragðdaufur framan af en í fyrri hálfleiknum náði Richarlison að koma boltanum í netið en hann var réttilega dæmdur rangstæður.

Marcus Edwards átti geggjaðan sprett hjá Sporting í fyrri hálfleiknum sem endaði með skot sem Hugo Lloris varði naumlega í hornspyrnu.

Sporting sótti töluvert í restina og liðið náði að uppskera. Paulinho kom Sporting yfir með skallamarki eftir hornspyrnu á síðustu mínútu leiksins.

Hann smurði boltann glæsilega í fjærhornið við mikinn fögnuð heimamanna. Sporting var ekki hætt en varamaðurinn Arthur Gomes kláraði leikinn á þriðju mínútu uppbótartímans.

Hann fór þá mjög illa með varnarmenn Tottenham áður en hann kláraði færið yfirvegað í fjærhornið.

Sporting er því með sex stig eftir tvær umferðir í D riðlinum en Tottenham er með þrjú stig.

Plzen 0 - 2 Inter
0-1 Edin Dzeko ('20 )
0-2 Denzel Dumfries ('70 )
Rautt spjald: Pavel Bucha, Plzen ('61)

Sporting 2-0 Tottenham
1-0 Paulinho ('90)
2-0 Arthur Gomes (90+3)