þri 13.sep 2022
Meistaradeildin: Matip hetja Liverpool - Bayern lagði Barca
Matip skoraði sigurmarkið.
Sane er sjóðheitur þessa daganna.
Mynd: Getty Images

Club Brugge niðurlægði Porto.
Mynd: Getty Images

Það voru fimm leikir á dagskrá í kvöld í Meistaradeild Evrópu en fyrr í dag unnu Sporting Lissabon og Inter Milan góða 2-0 sigra.Í A-riðli áttust við Liverpool og Ajax á Anfield. Heimamenn byrjuðu betur og komust yfir á 17. mínútu þegar Mohamed Salah kláraði færið sitt vel eftir sendingu frá Diogo Jota.

Gestirnir voru ekki lengi að svara og skoraði Mohammed Kudus glæsilegt mark en hann þrumaði þá knettinum í slánna og inn af stuttu færi.

Liverpool leitaði að sigurmarkinu í síðari hálfleiknum og fékk Darwin Nunez fékk mjög gott færi og liðið átti þá einnig skot í slánna. Daley Blind fékk dauðafæri á að skora fyrir Ajax en hann skallaði knöttinn framhjá.

Það var síðan Joel Matip af öllum mönnum sem tryggði Liverpool gífurlega mikilvægan sigur. Hann skallaði þá knöttinn yfir línuna eftir hornspyrnu hjá heimamönnum.

Í B-riðli voru óvænt úrslit. Club Brugge gerði sér lítið fyrir og valtaði yfir Porto á útivelli. Úrslitin urðu 0-4 sigur Brugge sem situr á toppi riðilsins.

Í sama riðli vann Bayer Leverkusen verðskuldaðan 2-0 sigur á Atletico Madrid. Þeir þýsku voru miklu betri í kvöld og náði liðið að setja tvö mörk seint í leiknum.

Bayern Munchen vann Barcelona í stórleik kvöldsins en gestirnir frá Spáni klúðruðu nokkrum góðum færum áður en Bayern Munchen komst yfir með skallamarki frá Lucas Hernandes.

Það var síðan hinn spræki Leroy Sane sem kláraði leikinn með flottri afgreiðslu og sigur Bayern Munchen staðreynd.

Þá vann Eintracht Frankfurt öflugan 1-0 útisigur á Marseille í Frakklandi. Öll úrslit og markaskorara kvöldins má sjá hér fyrir neðan.

A riðill
Liverpool 2 - 1 Ajax
1-0 Mohamed Salah ('17 )
1-1 Mohammed Kudus ('27 )
2-1 Joel Matip ('89)

B riðill
Porto 0 - 4 Club Brugge
0-1 Ferran Jutgla ('15 , víti)
0-2 Kamal Sowah ('47 )
0-3 Andreas Olsen ('52 )
0-4 A. Nusa ('88)

Bayer 2 - 0 Atletico Madrid
1-0 Robert Andrich ('84 )
2-0 Moussa Diaby ('87)

C riðill
Bayern 2 - 0 Barcelona
1-0 Lucas ('50 )
2-0 Leroy Sane ('54 )

D riðill
Marseille 0 - 1 Eintracht Frankfurt
0-1 Jesper Lindstrom ('43 )