mið 14.sep 2022
Dómarastjóri KSÍ: Þá eru mjög margir dómarar á Íslandi vanhæfir
Birgir Þór Þrastarson.
Fyrir utan höfuðstöðvar KSÍ.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Það myndaðist mikil umræða um það í Ástríðunni í síðustu viku að Birgir Þór Þorsteinsson hefði dæmt tvo leiki Dalvíkur/Reynis í 3. deild karla.

Birgir er fyrrum leikmaður Dalvíkur/Reynis, en hann er Akureyringur og mikill Þórsari.

Það kom fram í þættinum að Elliði hefði reynt að fá annan dómara fyrir leik sinn gegn Dalvík/Reyni þar sem þau töldu Birgi hlutdrægan en KSÍ hefði ekki samþykkt þá beiðni.

Undirritaður ákvað að slá á þráðinn til Magnúsar Más Jónssonar, dómarastjóra KSÍ, og fá hans viðbrögð við þessari umræðu.

„Við erum þarna með mann sem spilar einhverjar 40 mínútur með liðinu 2008 - fyrir 14 árum síðan," sagði Magnús.

„Leikmennirnir sem eru að spila með Dalvík í dag voru flestir að borða sand þegar Birgir freistaði gæfunnnar með Dalvík/Reyni. Birgir hefur ekki haft nein tengsl við félagið eftir þetta sumar 2008."

„Ef þetta telst vera nóg til þess að útiloka hann frá að dæma hjá Dalvík þá eru mjög margir dómarar á Íslandi vanhæfir vegna smæðar landsins og tenginga milli manna. Það væri þá nánast ómögulegt að halda úti mótahaldi með sama hætti og gert er í dag."

„Það er alþekkt að leikmenn reyna fyrir sér með öðrum félögum en móðurfélaginu. Slíkt geri dómarann ekki vanhæfan nema tengingin sé þeim mun meiri. Það verður að meta í hverju tilviki fyrir sig."

Magnús kom inn á það að KSÍ væri að leggja mikið á sig til að manna alla leiki í neðri deildunum. Þannig sé verið að hugsa vel um neðri deildirnar, jafnvel betur en í mörgum öðrum löndum.

Dómarar fá eftirfarandi skilaboði á hverju ári
Vensl og önnur tengsl: Mikilvægt er að dómarar upplýsi um hæfi sitt til dómgæslu vegna vensla þeirra við félög eða einstaklinga tengdum knattspyrnunni. Dómurum ber m.a. að upplýsa um störf sín hjá félögum, tengsl sín sem leikmenn félaga, stjórnarsetu í félögum, þátttöku í foreldrastarfi, náin tengsl sín við einstaklinga í félögum sem þeir geta fengið úthlutaða leiki hjá og annað sem ætla mætti að dómaranefndin þurfi að vita við úthlutun starfa.

Sjá einnig:
Ástríðan birtir yfirlýsingu í kjölfarið á umræðu um dómara