mið 14.sep 2022
Fjalla um ósætti Boehly og Tuchel sem varð kveikjan að brottrekstrinum
Thomas Tuchel.
Todd Boehly.
Mynd: Getty Images

Þýska blaðið Bild fjallar um síðustu daga Thomas Tuchel í stjórastól Chelsea og hvernig ósætti hans við eigandann Thomas Tuchel varð til þess að hann var rekinn.

Eitt af því sem varð til þess að samband þeirra versnaði var sú ákvörðun Boehly að Wesley Fofana færi til New York í læknisskoðun. Það tafði það að varnarmaðurinn kæmi inn í leikmannahóp Chelsea, við litla hrifningu Tuchel.

Fofana var keyptur frá Leicester á um 70 milljónir punda.

Þá segir að fögur orð Tuchel um Marinu Granovskaia hafi fallið í grýttan jarðveg hjá Boehly. Marana sá um samningamál við leikmenn í eigendatíð Roman Abramovich og átti gott vinnusamband við Tuchel en lét af störfum í sumar.

Einnig er talað um óánægju Boehly þegar Tuchel vildi ekki nýta tækifæri til að kaupa Cristiano Ronaldo frá Manchester United. Boehly vildi fá Ronaldo í viðskiptalegum tilgangi, sérstaklega til að auka verðmæti í Bandaríkjunum, en Tuchel hafði áhyggjur af því hvaða áhrif hann hefði í klefanum.

Það brá mörgum í brún þegar Boehly ákvað að reka Tuchel svona snemma á tímabilinu, rétt eftir sumarglugga þar sem félagið eyddi 272 milljónum punda í leikmannakaup. Graham Potter var sóttur frá Brighton og ráðinn í stað Tuchel.

„Þegar þú tekur yfir fyrirtæki, sama hvers eðlis það er, þá verður þú að sjá til þess að allir séu í sama takti. Tuchel er augljóslega gríðarlega hæfileikaríkur og hefur náð frábærum árangri. En við vildum finna stjóra sem væri með sömu sýn og vildi virkilega vinna með okkur," sagði Boehly á ráðstefnu í Bandaríkjunum í gær.

„Við vorum hreinlega ekki viss um að Thomas sá þetta sömu augum og við. Það hefur enginn rétt eða rangt fyrir sér, við vorum bara ekki með sömu sýn á framtíðina. Þetta snérist ekki um leikinn í Zagreb heldur hvernig framtíðarsýn Chelsea á að vera."