mið 14.sep 2022
Heimir virðist þurfa að slökkva elda hjá jamaíska landsliðinu
Heimir Hallgrímsson.
Búist er við því að Heimir Hallgrímsson verði á föstudag formlega kynntur sem nýr landsliðsþjálfari Jamaíku.

Jamaíka mætir Argentínu í vináttulandsleik í Bandaríkjunum 27. september og verður það væntanlega fyrsti leikur Heimis. Hann virðist fara inn í mikinn ólgusjó í jamaíska fótboltanum því mikil reiði er yfir því að landsliðsfyrirliðinn Andre Blake var ekki valinn í hópinn.

Blake gagnrýndi fótboltasambandið opinberlega og það er talin ástæða þess að hann er ekki valinn. Leikmenn hafa verið ósáttir við lélegan aðbúnað, dapurt skipulag og vonda umgjörð í kringum liðið.

Sjálfur hefur Blake, sem er markvörður Philadelphia Union í Bandaríkjunum, ekki fengið útskýringu á því af hverju hann var ekki valinn í hópinn. Fjölmiðlar í Jamaíka hafa sagt að Heimir hafi verið með puttana í valinu á hópnum en mögulegt er að vinnuveitendur hans hafi tekið þá ákvörðun að Blake yrði ekki valinn.

„Nýr þjálfari sem starfar hjá þessu fótboltasambandi mun væntanlega skila sömu niðurstöðu," skrifaði Blake á samfélagsmiðlum þegar fótboltasamband Jamaíka tilkynnti að nýr landsliðsþjálfari yrði opinberaður bráðlega. Þetta mun hafa farið í taugarnar á æðstu mönnum sambandsins.

Cedella Marley, dóttir Bob Marley, er meðal þeirra sem hefur lýst yfir óánægju með stjórn sambandsins og lýsir yfir stuðningi við Blake. Hún birtir mynd þar sem stendur:„Við stöndum með Blake. 24. september verður sögulegur" en það er dagsetningin þegar landsliðshópurinn á að koma saman.