mið 14.sep 2022
Alex um breytt gengi og Heimi: Skulum ekkert gleyma því að Hemmi er að þjálfa liðið
ÍBV byrjaði tímabilið í Bestu deildinni alls ekki vel, liðið var einungis með fimm stig eftir fyrstu tólf leikina og ekki búið að vinna leik. Í tólftu umferðinni mætti liðið toppliðinu, Breiðabliki, og gerði jafntefli.

Í kjölfarið kom fyrsti sigurinn og hefur liðið samtals náð í fimmtán stig í síðustu níu umferðum.

Alex Freyr Hilmarsson, leikmaður ÍBV, var spurður út í breytt gengi liðsins í viðtali sem tekið var eftir jafntefli við Fram um helgina. Hægt er að hlusta á allt viðtalið hér.

Sjá einnig:
Alex horfir lítið á liðin fyrir neðan - „Finnst við vera það mikið betri"

„Ég veit ekki hvernig ég á að fara pent í þetta hjá þér. Það urðu ákveðnar mannabreytingar á tímabili sem gerðu okkur kleyft að spila þann fótbolta sem við lögðum upp með í vetur og hentar liðinu betur held ég í heild sinni. Það er held ég það sem breyttist."

Í júní byrjaði nafn Heimis Hallgrímssonar að sjást á leiksskýrslum ÍBV. Hefur hann haft einhver áhrif að mati Alex?

„Jú jú, auðvitað kom hann inn og hjálpaði okkur mikið - sérstaklega þegar hann fór hann Dave. Það hjálpaði alveg til og auðvitað fær hann mikið kredit fyrir það. Við skulum samt ekkert gleyma því að Hemmi er að þjálfa þetta lið og mikið kredit á hann líka," sagði Alex.

ÍBV verður í neðri hluta umspilinu þegar deildin tvískiptist eftir næst umferð þegar ÍBV heimsækir Breiðablik.